Fræðiheiti stafafuru, Pinus contorta, merkir „hin kræklótta fura“ og á lýsingin við um furuna sem vex við vesturströnd Kanada og Bandaríkjanna. Það var svo seinna að flokkunarfræðingar áttuðu sig á því að beinvaxin fura sem vex fjær ströndinni væri sömu tegundar og því er sama fræðiheitið nú notað yfir furu sem vex á mjög víðáttumiklu svæði og er afar misjöfn í laginu. Þess vegna rækta t.d. Svíar beinvaxna furu sem þeir kalla kræklu (kontorta).