Íslenskt skógræktarfólk þekkir sitkagreni vel, enda besta grenið við íslenskar aðstæður og ein mest gróðursetta trjátegund á landinu. Sitkagrenið okkar er frá norðurhluta útbreiðslusvæðis tegundarinnar í Alaska, en útbreiðslan er reyndar mjög sérstök. Sitkagreni vex á mjóu belti með fram ströndinni frá rúmlega sextugustu breiddargráðu í Alaska til fertugustu breiddargráðu í norðanverðri Kaliforníu. Í Evrópu samsvarar það strandlengjunni frá Bergen til Lissabon og loftslagsmunur svipaður, eða frá norrænum barrskógi í norðri til miðjarðarhafsloftslags í suðri.