Stærstu lífverur heims eru risafurur (Sequoiadendron giganticum). Þær eru engar furur, heldur teljast þær til sýprusættar rétt eins og einir. Heimkynni þeirra eru í 1.000-2.000 metra hæð í vesturhlíðum Snjófjalla (Sierra Nevada) í Kaliforníu. Á því hæðarbili er næg úrkoma til að halda uppi þéttum og miklum barrskógum, en þessi úrkoma fellur mest sem snjór að vetrarlagi. Þegar farið er um fjallgarðinn má sjá risafurur mjög víða, allt frá syðsta hlutanum norður til Tahoe-vatns. Þær vaxa í skógum innan um gulfuru, sykurfuru, rauðþin, degli og risalífvið og eru óvíða miklu stærri en þær tegundir, enda ungar. Þarna hafa skógar verið nytjaðir í um 170 ár og eru flestir endurvaxnir eftir skógarhögg.