Á árunum 1936-1938 flutti Skógræktin inn plöntur frá norskum gróðrarstöðvum og framræktaði í gróðrarstöðvum sínum á Hallormsstað, Vöglum og í Múlakoti. Af þessum innflutningi er elsta sitkagrenið á Íslandi þekktast, en allmörg tré af nokkrum tegundum frá þessum tíma finnast í görðum og skógarlundum víða um land. Þeirra á meðal er murrayana-furan sem myndar lítinn lund innan við Kerlingará á Hallormsstað.