Í þessu myndbandi hittum við Ólaf Oddsson, skógfræðing og kennslufræðing, í skóginum hans, Ólaskógi, sem er í fallegri hlíð í Kjósinni. Skóginn hefur Ólafur ræktað sjálfur undanfarna áratugi á æskuslóðum sínum og sett þar niður fjölbreyttar tegundir trjáplantna og annars gróðurs. Hann hefur uppskorið ríkulega í auðugu fuglalífi, gróskumiklum botngróðri, skordýralífi og blómgróðri en er líka löngu farinn að nýta timbrið úr skóginum.

Eldiviður er mikilvægur hluti af viðarnytjum. Íslendingar hafa að mestu týnt niður þeirri þekkingu og menningu sem snertir eldivið. Frændur okkar í Skandinavíu halda í þessa menningu en hana þarf að byggja upp á ný á Íslandi. Mikilvægt er að kunna að vinna eldiviðinn rétt, saga í réttar stærðir, kljúfa, þurrka, geyma og líka að kveikja upp. Ekki er sama hvernig neitt af þessu er gert. Með réttum aðferðum fáum við eldivið sem brennur hreinum bruna með litlum reyk og sóti en góðum hita. Til að ná þessu þarf að fara rétt að í öllu ferlinu. Í myndbandinu sýnir Ólafur okkur hvernig best er að bera sig að. Þetta er ekki flókið eða erfitt. En ef rétt er að farið uppskerum við ríkulega og gleðin við að nýta eldiviðinn verður meiri.

Ólafur Oddsson hefur áratuga reynslu af því að kenna ungum sem öldnum hvað eina sem snertir skógrækt, skógarnytjar, útivist í skógi, notkun skóga til fræðslu í skólastarfi og til endurmenntunar almennings og þar mætti lengi telja. Hann hefur unnið um áratuga skeið með skólafólki á öllum skólastigum og talað fyrir því að færa kennsluna út í skóg þar sem eru tækifæri til kennslu í flestum ef ekki öllum kennslugreinum. Útikennsluaðstöðu hefur víða verið komið upp með hjálp og ráðgjöf Ólafs og komið hefur í ljós að útikennsla breikkar mjög möguleika í hvers kyns kennslu. Ekki síst er áberandi að nemendur sem ekki finna sig vel í skólastofunni geta blómstrað og laðað fram hæfileika sína þegar kennslan er færð út undir bert loft. Uppbygging skógarmenningar er Ólafi mjög hugleikin. Hann hefur talað fyrir því að skógarmenning þurfi að byggjast upp samhliða því sem skógarnir okkar vaxa. Við þurfum að kunna að nýta skógana til alls sem þeir geta gefið okkur, ekki aðeins til viðarnytja, sveppa- og berjatínslu heldur einnig til útivistar, lýðheilsu, skemmtunar, fræðslu, slökunar og svo framvegis. Í skóginum er svo margt að finna sem tengist tilverunni, hvernig sem á hana er litið, efnin, eðlisfræðina, lífið, hringrásir lífsins, loftslagið, heilsuna, stærðfræðina, samfélagið, uppsprettur efna í smíðar, matargerð, klæði og svo framvegis. Skógurinn er göldrum líkastur.