Sigurður Jónsson (Siggi Lord) er skógarbóndi í Ásgerði í Hrepphólum, Hrunamannahreppi. Hér segir hann sitthvað af skógræktinni þar síðustu 35 árin. Skóg ræktar hann á um 30 hekturum lands en er annars í repjurækt, kornrækt og túnrækt. Um þessar mundir er hann að fella aspir frá fyrstu árum skógræktar sinnar og hefur látið fletta asparboli í borð og planka. Öspina segir hann vera lifandi og litríkan við sem henti vel í ýmsa smíði, bæði í panil og utanhússklæðningar. Í stað aspanna sem felldar eru ætlar Sigurður að rækta aðrar trjátegundir, meðal annars sitkagreni. Hann talar um að snefilefni vanti í jarðveginn þegar byrjað er á fyrstu lotu. Þessi fyrsta lota sé eiginlega undirbúningur fyrir næstu kynslóð trjáa sem tekur við eftir að sú fyrsta hefur verið felld. Sigurður hefur gert ýmsar tilraunir í skógrækt sinni og prófar ýmsar nýstárlegar aðferðir. Hefur til dæmis útbúið sérstakt rör sem líkist plöntustaf en með miklu sverara röri. Það er ætlað til að taka litlar trjáplöntur upp til að gróðursetja annars staðar. Með áhaldinu er líka hægt að búa til mátulega stóra holu fyrir hnausinn á nýjum stað. Hann gerir tilraun með að nota gras til að hlífa ungum greniplöntum fyrir frostlyftingu og fleira og fleira. En sjón er sögu ríkari.