Þórhildur Ísberg ver miðvikudaginn 2. júní meistararitgerð sína í skógfræði við LUKE í Finnlandi. Verkefni hennar nefnist á ensku „The pathogenicity of the blue stain fungus Ophiostoma clavatum in Scots pine seedlings”, sem á íslensku útleggst „Sýkingarmætti grágeitarsveppsins Ophiostoma clavatum í fræplöntum skógarfuru”.
Skógræktin tekur þátt í upphafsviðburði áratugar Sameinuðu þjóðanna um endurhæfingu vistkerfa fimmtudaginn 3. júní með því að Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóganna, segir frá vernd og útbreiðslu birkis á Þórsmerkursvæðinu. Þá verða sérfræðingar úti við að dagskrá lokinni og fræða gesti um ýmislegt sem snertir vistkerfi, eflingu þeirra og ógnir sem að þeim geta steðjað. Viðburðurinn verður í Norræna húsinu í Reykjavík og hefst kl. 16.30.
Sérfræðingar Skógræktarinnar mátu í vikunni ástand gróðurs á þeim svæðum í Heiðmörk sem brunnu þar í eldi 4. maí. Lagðir verða út mælilfletir til að meta áhrif brunans og fylgjast með gróðurframvindu og skordýralífi á svæðinu. Til greina kemur að BS-nemendur í skógfræði við LbhÍ vinni rannsóknarverkefni í tengslum við þennan gróðureld.
Skógræktin á aðild að nýjum starfshópi um varnir gegn gróðureldum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sett á laggirnar. Hópurinn á að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum með forvörnum og fræðslu um gróðurelda. Reynslan af baráttu við gróðurelda, bæði hér á landi og erlendis, sýnir að til að ná árangri þurfi að samstilla alla sem koma að slökkvistarfi eða verða fyrir áhrifum af gróðureldum og beina þurfi forvörnum og fræðslu þvert á samfélagið.
Tíu manna hópur starfsmanna Skógræktarinnar gekk á Hvannadalshnúk, hæsta tind Íslands, á uppstigningardag. Gangan á tindinn tók níu tíma og þaðan var gott útsýni í björtu og hægu veðri. Alls tók ferðin 16 klukkustundir.