Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um rótarsjúkdóma sem séu nýjasta ógnin í skógum landsins. Fundist hafi phytopthora-rótarsjúkdómur í gróðrarstöð hérlendis en ekki vitað til þess að hann hafi borist út í náttúruna. Rætt er við Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðing hjá Skógræktinni, sem vill að reglugerð um innflutning plantna verði endurskoðuð. Sjúkdómar sem hafi verið að breiðast út um Evrópu gætu orðið ógn í ræktun runna og trjáa hérlendis.
Út er komið dagatal Skógræktarinnar 2019 með ljósmyndum af íslenskum skógarfuglum. Dagatalinu er dreift til skógarbænda, samstarfsfólks Skógræktarinnar, stofnana og fyrirtækja.
Fagráðstefna skógræktar 2019 verður haldin á Hallormsstað 3.-4. apríl. Landnotkun og loftslagsmál verða meginviðfangsefni eða þema ráðstefnunnar að þessu sinni og yfirskriftin Öndum léttar – landnotkun og loftslagsmál. Frestur til að skila inn tillögum um fyrirlestra og veggspjöld er til 15. janúar.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa samið við Umhverfisvöktun ehf. um að greina kolefnislosun á svæðinu og mögulegar mótvægisaðgerðir. Vonast er til að þetta verði skref í átt að markvissri kolefnisjöfnun svæðisins.
Í skógarfurureit sem gróðursett var í árið 1986 á Vöglum á Þelamörk er lifun mjög góð og svo virðist sem furulús hafi lítið spillt fyrir vexti og þroska trjánna. Kvæmið er frá Mæri og Raumsdal í Noregi og lofar reiturinn góðu sem mögulegur frægarður skógarfuru á Íslandi.