Í hádegisfréttum Útvarps í dag, 19. febrúar, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, að í frumvarpi að nýjum heildarlögum um skógrækt væri komið til móts við athugasemdir um áhrif skógræktar á fuglalíf. Kveðið er á um gerð landsáætlunar í skógrækt í frumvarpinu og þar beri að hafa ákveðnar forsendur fyrir vali á landi til skógræktar.
Búsvæði lóu og spóa á Íslandi eru að stækka með náttúrulegri gróðurframvindu og landgræðslu. Ekkert bendir til þess að varpstofnar þessara tegunda hafi minnkað með aukinni útbreiðslu skóglendis á Íslandi. Skógrækt á Íslandi er vel skipulögð og fram undan er áætlanagerð með sveitarfélögum sem verður á endanum að heildaráætlun fyrir landið. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri skrifar pistil að gefnu tilefni og spyr hvort þær loftslagsbreytingar sem nú eru í gangi séu ekki helsta ógnin við fuglastofna á Íslandi. Skógrækt geti verið liður í að bjarga því sem bjargað verður úr því sem komið er.
Sveitarstjórn Skaftárhrepps vill að stofnaður verði samráðshópur með Skógræktinni og Landgræðslunni sem skoði tillögur að svæðum í Skaftárhreppi sem komi til greina fyrir aðgerðir í skógrækt og landgræðslu. Ávinningur af slíku geti verið fjölþættur.
Skógræktin er þriðja vinsælasta ríkisstofnunin samkvæmt nýrri könnun Maskínu á viðhorfum landsmanna til fjörutíu ríkisstofnana. Jákvæðni fyrir stofnuninni hefur heldur aukist síðustu ár.
Í tengslum við aðalfund Hins íslenska náttúrufræðifélags 25. febrúar verður kynnt bókin Flóra Íslands sem hlaut á dögunum Íslensku bókmenntaverðlaunin. Fundurinn verður í Öskju, náttúruvísindahúsi HÍ, og hefst kl. 17.15