Götur í öllum hverfum fá grænna yfirbragð og meiri gróður, græn svæði og almenningsgarðar verða fegraðir, ásýnd borgarinnar verður blómlegri og skógrækt aukin með gróðursetningu Loftslagsskóga Reykjavíkur. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun 2020-2025 sem hvort tveggja var samþykkt í borgarstjórn í vikunni. Ræktun Loftslagsskóga Reykjavíkur er þegar hafin og þar er áætlað að bindist 7 tonn af koltvísýringi á hverju ári að meðaltali næstu hálfa öldina.
Nemendur Kirkjubæjarskóla og Heilsuleikskólans Kærabæjar á Kirkjubæjarklaustri vinna þessa dagana að því að búa til ævintýraskóg í Skógarlundinum á Klaustri í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og Skógræktina. Markmiðið er meðal annars að fólk hafi stað til að upplifa jólastemmningu án þess að hafa áhyggjur af sóttvörnum.
Vel hefur viðrað til að sækja jólatré í þjóðskógana þetta árið. Hæsta torgtréð sem tekið var þetta árið reyndist vera 11,5 metra hátt og kom af Vesturlandi. Trén líta vel út í ár í öllum landshlutum. Veirufaraldurinn hefur ekki haft áhrif á vinnuna í skóginum en kemur hins vegar í veg fyrir hefðbundna viðburði í skógunum í aðdraganda jólanna. Allir ættu þó að geta nælt sér í ilmandi íslenskt jólatré. Þá eru líka íslenskir könglar til sölu í visthæfum pappaumbúðum auk greina, skreytingaefnis, eldiviðar og fleira úr skóginum.
Komnir eru á markað í umhverfisvænum neytendaumbúðum íslenskir jólakönglar sem henta vel í jólaskreytingar. Fáanlegir eru könglar af lerki, stafafuru og rauðgreni og þeim er pakkað inn í visthæfar umbúðir úr pappa sem er skógarefni. Sömuleiðis eru seldar jólagreinar. Þessar vörur eru afrakstur samstarfs Skógræktarinnar og fangelsanna.