Avis-bílaleigan býður viðskiptavinum sínum á næstunni að binda kolefni í íslenskum skógum til mótvægis við þá losun sem hlýst af notkun bílaleigubílanna. Þjónustan er í boði gegnum Treememberme en Skógræktin sér um ræktun skóganna og þar með um kolefnisbindinguna.
Íslenskt límtré, húsgögn úr íslensku timbri og timburbyggingar verða til umfjöllunar ásamt umhverfisáherslum í Hafnarfirði á morgunfundi Grænnar byggðar sem haldinn verður kl. hálfníu fimmtudaginn 5. desember í Hafnarborg Hafnarfirði.
Ákveðið hefur verið að Menntamálastofnun taki að sér verkefnabanka Skógræktarinnar um útinám, „Lesið í skóginn“. Verkefnin í bankanum verða gefin út á rafrænu formi og miðlað til skóla landsins. Samningur þessa efnis var undirritaður á Mógilsá í dag.
Skógrækt var í gær kynnt troðfullum sal þátttakenda á Vísindadögum Menntaskólans á Ísafirði sem nú standa yfir. Fjallað var meðal annars almennt um Skógræktina, skipulag hennar og fjölbreytt verkefni stofnunarinnar en einnig um Íslenska skógarúttekt.
Grisjun í Haukadalsskógi í Biskupstungum sem unnið er að þessa dagana mun skila minnst 800 rúmmetrum af timbri. Stórvirk vinnuvél er notuð við verkið sem gengur því greiðlega fyrir sig, nú í mildu haustveðrinu. „Skógarnir eru auðlind sem skilar okkur sífellt meiri afurðum,“ segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, í samtali við Morgunblaðið.