Björn Bjarndal Jónsson skógfræðingur kennir á námskeiði á vegum Garðyrkjuskólans á Reykjum/FSU sem fram fer á Kluftum í Hrunamannahreppi 9. september. Þátttakendur verða upplýstir um helstu aðalatriði sem horfa þarf til þegar ráðist er í landgræðslu og skógrækt svo góður árangur náist.
Ef draga á úr hraðfara loftslagsbreytingum af mannavöldum er nokkuð ljóst hvað þurfi að gera. Draga þarf úr notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa jafnframt því að draga úr CO2 í andrúmsloftinu. Stöðva þarf skógareyðingu jafnframt því að rækta nýja skóga í stað þeirra sem hafa tapast. Breyta þarf neysluvenjum þannig að dregið verði úr hlutfalli kjöts í fæðu fólks. Þetta segir skógræktarstjóri m.a. í grein þar sem hann hrekur þær staðhæfingar sumra að skógrækt sé skipulagslaus, jafnvel stjórnlaus og fyrir henni séu engin rök eða markmið.
Í nýútkomnu tölublaði Rits Mógilsár eru birtar niðurstöður úr nýlegum mælingum á svokallaðri Rarik-tilraun sem sett var út fyrir aldarfjórðungi með fimmtíu birkikvæmum. Í ljós kemur að birki frá Suðausturlandi myndar mest fræ og hefur mest þol gegn birkiryði. Sunnlenskt birki hefur líka yfirburði í vexti og lifun. Höfundar telja að vinna ætti áfram með þann kynbótaávinning sem þegar hefur náðst svo þróa megi birki sem hentar almennt á láglendi Íslands.
Skógræktin hefur gefið út nýtt myndband um lífkolagerð og rannsóknarverkefnið sem nú er í gangi þar sem kannaður er ávinningurinn af því að blanda lífkolum í jarðveg ræktarlanda. Myndbandið gerði Hlynur Gauti Sigurðsson hjá Kviklandi.
Líf og fjör verður í skógum víða um land um næstu helgi. Skógardagurinn fer fram í Hallormsstaðaskógi og skógræktarfélög bjóða til fjölbreyttra viðburða undir yfirskriftinni Líf í lundi.