Fjölbreyttir skógarviðburðir dagana 24.-26. júní
Fjölbreyttir skógarviðburðir dagana 24.-26. júní

Líf og fjör verður í skógum víða um land um næstu helgi. Skógardagurinn fer fram í Hallormsstaðaskógi og skógræktarfélög bjóða til fjölbreyttra viðburða undir yfirskriftinni Líf í lundi.

Sú hefð er að festast í sessi að heil helgi síðla í júnímánuði sé tilefni fjölbreyttra viðburða í skógum víða um landið. Það er upplagður tími til að njóta skógarins því um þetta leyti er gróðurinn kominn í fullan vöxt, gróskan í algleymingi og ilmurinn eftir því.

Auglýsing fyrir Skógardaginn mikla 2023Lengst er þessi hefð um Jónsmessuleytið bundinn við Skógardaginn mikla  í Hallormsstaðaskógi og að þessu sinni verður hann haldinn laugardaginn 24. júní. Dagskráin hefst klukkan tólf með fyrri hluta skógarhöggskeppninnar. Náttúruskólinn býður líka börnum að reyna sig við ýmsar þrautir og leiki en formleg dagskrá í Mörkinni hefst svo klukkan eitt með skemmtidagskrá á sviði. Heilgrillað naut með meðlæti verður í boði á vegum Félags nautgripabænda á Héraði og Fjörðum, ketilkaffi, lummur, pylsur og ormabrauð að hætti skógarmanna er líka á boðstólum og grillað lambakjöt frá Félagi sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum. Eftir lokagreinar í skógarhöggi verður Íslandsmeistarinn krýndur og dagskrá lýkur um kl. 16.

Líf í lundi er samstarfsverkefni skógargeirans undir stjórn Skógræktarfélags Íslands og er Skógardagurinn mikli þar einn viðburða. Í sjö skógum til viðbótar verða í boði viðburðir frá laugardegi og fram á mánudag. Á laugardag verður fjölskyldudagur í Höfðaskógi á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, skógarblót verður í Öskjuhlíð á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur og Ásatrúarfélagsins, og fjölskylduhátíð í Fossselsskógi á vegum Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga sem fagnar áttatíu ára afmæli á árinu. Á laugardaginn verður líka samvera í Seljadalsskógi á vegum Skógræktarfélags Bíldudals. Skógræktarfélag Skilmannahrepps býður hins vegar upp á skógardag í Álfholtsskógi bæði laugardag og sunnudag, víkingabúðir og ýmislegt skemmtilegt. Á sunnudag verður hins vegar líf í Leyningshólum á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga með skordýraskoðun, tálgun og fleira, en svo teygist Líf í lundi líka fram á mánudag með skógardegi í Slögu á vegum Skógræktarfélags Akraness.

Texti: Pétur Halldórsson