Hluti forsíðu 50. tölublaðs Rits Mógilsár
Hluti forsíðu 50. tölublaðs Rits Mógilsár

Í nýútkomnu tölublaði Rits Mógilsár eru birtar niðurstöður úr nýlegum mælingum á svokallaðri Rarik-tilraun sem sett var út fyrir aldarfjórðungi með fimmtíu birkikvæmum. Í ljós kemur að birki frá Suðausturlandi myndar mest fræ og hefur mest þol gegn birkiryði. Sunnlenskt birki hefur líka yfirburði í vexti og lifun. Höfundar telja að vinna ætti áfram með þann kynbótaávinning sem þegar hefur náðst svo þróa megi birki sem hentar almennt á láglendi Íslands.

Titill greinarinnar er Ræktunaröryggi, vöxtur, fræmyndun og heilbrigði kvæma íslensks birkis. Höfundar eru Brynjar Skúlason og Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingar á rannsóknasviði Skógræktarinnar, ásamt Aðalsteini Sigurgeirssyni, fagmálastjóra Skógræktarinnar, sem raunar vann að tilrauninni í upphafi og stýrði m.a. fræsöfnun af þeim kvæmum sem notuð voru.

Í útdrætti greinarinnar er bent á að íslensku birkiskógarnir séu breytilegir að hæð og gerð og erfitt geti reynst að greina hvað þar ræður mestu, arfbundnir eiginleikar eða staðbundnar umhverfis­aðstæður. Betri vitneskja um þetta er dýrmæt. Vorið 1998 var því sett út kvæma­tilraun með 50 kvæmum, gróðursett á níu mismun­andi tilraunastaði og voru fimm þeirra mældir árin 2020 og 2021. Hæð og þvermál plantnanna var mælt auk þess að lifun, ryðmyndun og fræmagn var metið.

Sunnlenskt birki með yfirburði

Fræmyndun á tilraunastöðunum í Varmadal, á Hjaltastað, Fagurhólsmýri og Læk. Birki frá Suðausturlandi raðar sér í efstu sætin. Góð fræmyndun er mikilvæg í birkiútbreiðsluverkefnum þar sem birkinu er ætlað að sá sér út af eigin rammleik Þessar nýju mælingar leiddu í ljós jákvæða fylgni fyrir alla eiginleika í einkunnum kvæma milli tilraunastaða og oftar en ekki var fylgnin marktæk sem bendir til að eiginleikarnir stýrist af arfgerð fremur en umhverfi. Mjög góð fylgni fannst á milli sunn­lensku tilraunastaðanna í lifun, þar sem kvæmið Steina­dalur er afgerandi best og kvæmin frá Suðaustur- og Suðvesturlandi raðast nánast öll fyrir ofan kvæmin frá Norðaustur- og Norðvestur­landi. Röðun kvæma í lifun er breytilegri á tilraunastöðum á Norður­landi og á Vest­fjörðum.

Bæjarstaða­birki og skyldir stofnar reyndust al­mennt hafa mestan lífmassa og kvæmin frá Suðaustur- og Norðausturlandi hafa fæsta auka­stofna. Skýrustu niður­stöðurnar eru fyrir fræ­myndun og ryð­þol þar sem birkið frá Suðaustur­landi hefur yfirburði í ríkulegri fræmyndun og besta þolið gagn­vart birkiryði. Við notkun birkis fyrir lág­lendi Íslands telja höfundar að nýta megi þann kynbóta­ávinning sem yrkið Embla sýnir og auka erfða­breytileikann með því að bæta klónum inn í þýðið frá kvæmum sem koma vel út í til­rauninni s.s. Steina­dal, Þing­völlum, Þórs­mörk og Bæjarstað.

Í niðurstöðukafla greinarinnar má sjá gröf sem varpa góðu ljósi á mun milli kvæma og tilraunastaða. Í umræðukaflanum eru niðurstöðurnar reifaðar og koma skýrt í ljós yfirburðir sunnlensku birkikvæmanna í bæði lifun og vexti óháð landshlutum. Niðurstöður staðfesta að Bæjarstaðabirki og skyldir stofnar hafa víðtækt notagildi þar sem rækta skal há­vaxna birkiskóga með mikinn vaxtarþrótt. Steinadals­birkið (úr Suðursveit) virðist þrífast vel víða um land og hentar vel þar sem áhersla er á góða lifun og mikla fræ­myndun. Kvæmin Þing­vellir og Þórs­mörk virðast lífseig og þróttmikil og henta e.t.v. betur en annað birki inn til landsins á Norðaustur­landi og Vest­fjörðum en ekki eru mörg dæmi um að það hafi verið reynt. Norðlenskt birki telja höfundar að ætti fyrst og fremst að nota á Norðurlandi en ekki í öðrum landshlutum.

Aukinn erfðabreytileiki vörn gegn loftslagsbreytingum

Einnig er í umræðukaflanum minnst á loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á birkið, ekki síst vegna nýrra skaðvalda. Góð leið til að halda í erfðabreytileikann, og efla með því mögu­leika birkisins til aðlögunar, sé að tryggja að birki um land allt fái tækifæri til að vaxa í friði og við hag­felldar aðstæður til að sá sér út með fræi. Þannig verði til nýjar arfgerðir og einhverjar þeirra muni e.t.v. skara fram úr. Þar sem ekki sé víst að sami efniviður birkis henti á láglendi og við hálendisbrúnina segja höfundar æskilegt að fram fari kvæmatilraunir með birki í meiri hæð yfir sjó til að meta hvaða efniviður hentar best við slíkar aðstæður.

Hvað varðar notkun birkis til skógræktar á láglendi álíta höfundar að í senn þurfi að nota efnivið sem hæfir markmiðum ræktunarinnar og hafi umtals­verðan erfðabreytileika til að takast á við ófyrir­séðar loftslagsbreytingar. Kynbætta yrkið Embla virðist vera að skila kynbóta­­ávinningi og við frekari kyn­bætur telja höfundar að tvímæla­laust ætti að byggja áfram á þeim ávinningi og bæta inn erfðaefni frá öflugum stofn­um eins og Steinadal, Þingvöllum og Þórsmörk til að þróa birki sem hentar almennt á láglendi Íslands. Slík inn­blöndun myndi auka erfðabreytileika í gróður­settu birki og auka líkur á aðlögun tegundar­innar gagnvart breytilegu umhverfi, t.d. vegna loftslags­breytinga. Einnig telja höfundar að innblöndun erfðaefnis frá suð­lægari lönd­um geti líka verið valkostur til að auka lífslíkur birkis­ins ef loftslagsbreytingar verða verulegar.

Hlekkur á greinina:

Texti: Pétur Halldórsson