Þátttaka leik- og grunnskóla í Árborg í verkefninu „Gullin í grenndinni“ hefur aukið áhuga barna á útiveru og umhverfi. Þau eru ófeimnari að nýta sér skóginn til útivistar og leikja og fara nú út í öllum veðrum. Nemendur sem eiga við hegðunar- og samskiptaörðugleika að etja njóta sín gjarnan betur þegar þau eru úti í náttúrunni. Þetta er mat leikskólakennara á Selfossi sem hefur tekið þátt í verkefninu. Nú hefur verið undirritaður formlegur samstarfssamningur um verkefnið.
Jafnvel þótt ræktaður skógur kunni að verða á fáeinum prósentum landsins eftir nokkra áratugi hverfa engin fjöll. Alls staðar verður um ókomna tíð stutt að fara úr skjóli og hlýindum skógarins út í næðinginn þar sem sést í allar áttir. Skógarbændur sitja ekki eftir með digra sjóði þegar plönturnar eru komnar í jörð. Gróðinn verður komandi kynslóða og þjóðarbúsins í framtíðinni sem fær fjárfestinguna margfalda til baka, bæði í formi kolefnisbindingar og ýmiss konar viðarafurða.
Trjáræktarklúbburinn heldur aðalfund sinn í húsakynnum Skógræktarinnar á Mógilsá miðvikudagskvöldið 5. júní kl. 20. Á fundinum flytur Brynjar Skúlason skógerfðafræðingur erindi um stöðu kynbótarannsókna í skógrækt á Íslandi.
Barkarbjöllur hafa herjað mjög á rauðgreni í austanverðri Evrópu undanfarin misseri og meðal annars leikið grenið hart víða í Tékklandi og Slóveníu til dæmis. Tíðari stormar, þurrkar og hitabylgjur hafa veikt mótstöðuafl greniskóganna en vonast er til að aukin blöndun trjátegunda í skógunum geri kleift að rækta rauðgreni áfram.
„Það er gott fyrir jörðina að planta trjám,“ sögðu nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn á föstudag þegar gróðursett var á Hafnarsandi í Ölfusi í tilefni af því að Yrkjusjóður, Skógræktin og Landgræðslan hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála.