Fyrsta sáningin í átakinu sem nú stendur yfir með þjóðinni um söfnun og sáningu birkifræja fór fram föstudaginn 25. september. Sáð var í landi Kópavogs í Lækjarbotnum. Nemendur í 3. og 4. bekk í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum tóku sáninguna að sér ásamt Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, og fulltrúum aðstandenda verkefnisins.
Lögaðilar geta fengið tekjuskattstofn sinn lækkaðan um tæpt prósent vegna kostnaðar við skógrækt og fleiri aðgerðir sem leiða til kolefnisbindingar. Fyrirtæki geta því lækkað kostnað sinn við t.d. skógræktarverkefni umtalsvert. Markmið laga um þessi efni er að auka þátttöku fyrirtækja í öllum atvinnugreinum í baráttunni gegn hlýnun loftslags.
Frjósemi er mikil hjá trjánum í Heiðmörk þetta árið og mikið fræ að þroskast. Á laugardag verður Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, í Heiðmörk og leiðbeinir fólki um frætínslu og meðhöndlun trjáfræja.
Skógræktin hefur gefið út tvö stutt myndbönd með leiðbeiningum um hvernig fólk getur borið sig að við söfnun og sáningu á birkifræi. Almenningur getur lagt sitt af mörkum til að breiða út birkiskóglendi landsins á ný og til þess er hvatt í átaki sem Skógræktin og Landgræðslan standa fyrir á þessu hausti í samvinnu við almenning, félög og fyrirtæki.
Á jörðinni Víðifelli í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu býr Álfhildur Jónsdóttir skógarbóndi. Hún hefur langa sögu að segja af skógrækt þar á bæ. Skógræktin hefur gefið út stutta mynd þar sem Álfhildur gefur okkur glefsur af þessari sögu.