Sumarleyfistíminn er nú í hámarki og því er takmörkuð viðvera á starfstöðvum Skógræktarinnar vítt og breitt um landið. Frá 19. júlí til 16. ágúst eru flestir starfsmenn stofnunarinnar í fríi og ekki hægt að ganga að því vísu að svarað verði í síma. Bent er á starfsmannaskrána á skogur.is ef fólk á brýn erindi á þessu tímabili.
Smíði eldaskála og þjónustuhúss í Vaglaskógi gengur vel en hitinn að undanförnu hefur verið helst til mikill að undanförnu, segir byggingarstjórinn. Byggingin er öll úr íslensku timbri og þar verður aðstaða til að halda samkomur í skjóli, grilla og komast á snyrtingar. Þetta er sambærilegt mannvirki og þegar er risið í Laugarvatnsskógi og hafinn er undirbúningur að því þriðja í Hallormsstaðaskógi. Rætt var um framkvæmdina við skógarvörðinn á Norðurlandi á sjónvarpsstöðinni N4 nýverið.
Ilmbjörk (Betula pubescens) er eina íslenska trjátegundin sem myndar samfelldan skóg. Hún er ein mest gróðursetta trjátegundin í skógrækt á Íslandi undanfarin ár. Mikilvægt er að efniviðurinn sé góður og valin séu þau kvæmi birkis sem henta á því svæði sem gróðursett er á. Þá er ljóst að kvæmi geta verið misvel móttækileg fyrir ýmsum skaðvöldum. Einnig getur verið munur á því hversu mikið meindýr sækja í viðkomandi kvæmi.
Vaglaskógur er þekkt snjóakista enda stendur starfstöð Skógræktarinnar þar í nær 150 metra hæð yfir sjávarmáli. Skógurinn veitir skjól en safnar jafnframt í sig snjó á vetrum. Fyrir kemur að jörð sé snævi þakin í sjö mánuði í Vaglaskógi. Í Ársriti Skógræktarinnar 2020 er fjallað um snjóalög í skóginum í meira en 100 ár.
Í Ársriti Skógræktarinnar fyrir árið 2019 var sagt frá nýju verkefni, Skógarkolefni, sem Skógræktin hafði þá hrundið af stað. Með því væri ætlunin að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Þar með yrði í fyrsta sinn á Íslandi hægt að versla með vottaðar einingar kolefnis sem bundið er með nýskógrækt. Ein eining samsvarar einu tonni af koltvísýringi. Sá sem losar eitt tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið og vill kolefnisjafna það með ábyrgum og viðurkenndum hætti þarf að sjá til þess að eitt tonn af koltvísýringi verði bundið á ný, til dæmis í skógi. Nú eru fyrstu verkefnin að verða að veruleika undir merkjum Skógarkolefnis og fjallað er um það í Ársriti Skógræktarinnar 2020.