Skógur með reyniviði og sitkagreni. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson
Skógur með reyniviði og sitkagreni. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Sú hugmynd að staðarefniviður sé bestur í skógrækt er lífseig og hana má rekja til þess þegar fólk fór að gróðursetja tré í stað þeirra sem felld voru. Vísindin hafa hins vegar leitt í ljós að staðarefniviður er sjaldnast besti efniviðurinn. Í erindi sem Þröstur Eysteinsson flutti á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands í haust og sendi einnig nýverið á málþing skógarbænda á Varmalandi í Borgarfirði, bendir hann á að í raun sé ekki til neitt sem kalla megi staðarefnivið enda séu skilyrði síbreytileg á hverjum stað og stöðug þróun í gangi.

Erindi Þrastar er á þessa leið.

Erindi skógræktarstjóra til skógarbænda október 2023

 

Fyrir um 300 árum, þegar farið var að gróðursetja tré í stað þeirra sem felld voru, tóku skógræktarmenn eftir því að gróðursett tré uxu stundum ekki eins vel og þau sem áður voru á staðnum. Stundum virtist ástæðan vera sú að fræið sem notað var til að rækta plönturnar kæmi frá fjarlægum stöðum.

Á þeim tíma var engin vísindaleg þekking á erfðafræði trjáa og aðeins takmarkaður skilningur á aðlögun. Engu að síður virtist eðlilegt að álykta að notkun staðarefniviðar í plöntuframleiðslu væri áhættuminni en að nota efnivið frá fjarlægum slóðum. „Staðarefniviður er bestur“ varð þumalputtaregla og var kennd mörgum kynslóðum skógfræðinga, jafnvel þó að engin vísindi styddu hana.

Vísindalegur skilningur batnaði svo með árunum, með tilkomu þróunarfræði, erfðafræði, samanburðarhæfra kvæmatilrauna og loftslagsvísinda, svo dæmi séu nefnd. Þegar við notumst við raunvísindi kemur í ljós að staðarefniviður er sjaldan bestur og oft ekkert betri en í slöku meðallagi, jafnvel stundum verstur. Það kemur líka í ljós að aðlögun er safn mælanlegra eiginleika sem verða fyrir náttúruvali og þróast, en ekki einhver galdur sem gerist þegar eitthvað býr nógu lengi á tilteknum stað.

Þar sem vísindaleg þekking er til staðar, t.d. á Íslandi, hefur skógræktarfólk núna val um margar tegundir og kvæmi sem eru betri en staðarefniviður. Það hefur jafnvel val um hvernig trén eru betri – betri í vaxtarhraða eða formi eða mótstöðu gegn skaðvöldum eða einhverjum öðrum eiginleikum. Með kynbótum er hægt að bæta þessa eiginleika til muna fram yfir það að nota staðarefnivið.

Ekki er nóg með það að staðarefniviður sé sjaldnast bestur, hann er ekki einu sinni „staðarefniviður“. Rannsóknir á loftslagsbreytingum hafa leitt í ljós að staðhættir breytast og líklegt er að þær breytingar verði hraðar á komandi áratugum. Staður, skilgreindur sem samsafn aðstæðna eða staðhátta sem tré eru aðlöguð að, er ekki eitthvað sem varir endilega í langan tíma. Tré (og allar aðrar lífverur) þróast í endalausu kapphlaupi um að aðlagast þessum breytingum. Þetta útskýrir líka af hverju staðarefniviður er nánast aldrei bestur – hann nær því aldrei að verða fullkomlega aðlagaður vegna breytinga á staðháttum.

Því miður hafa ekki allir fylgst með þróun vísindalegrar þekkingar. „Staðarefniviður er bestur“ er eitthvað sem sumir telja enn að sé rétt. Sú mýta hefur meira að segja gengið í endurnýjum lífdaga í orðræðunni um líffræðilega fjölbreytni. „Nativismi“ (frumbyggjahyggja) er hugmyndafræði sem hefur öðlast umtalsvert fylgi. Sá ismi er e.t.v. mest áberandi í því að sífellt er staglast á „íslenskri náttúru“, í stað þess að tala bara um „náttúruna“, og er angi af sama meiði og þjóðernishyggja. Frumbyggjahyggja kemur líka fram í stefnu um að nota helst birki í verkefnum eins og Landgræðsluskógum og Hekluskógum.

Horft er á nýja landnema með tortryggni. Þeir eru kallaðir framandi og ágengir þó að engin rök séu fyrir því. Þeir eru jafnvel taldir siðfræðilega gallaðir – eru frekir, kæfa allt sem fyrir þeim verður og eyðileggja „íslenska náttúru“ af illum vilja. Eftir 11 alda áníðslu er sú náttúra allt í einu orðin „ósnortin“. Aðfluttar tegundir „eiga ekki heima“ á meðan frumbyggjategundir eiga „rétt“ á að vera þar sem þær eru (en reyndar ekki að flytjast eitthvað annað). Það er í raun einkenni lífvera að hreyfa sig úr stað á einn eða annan hátt. Það er hluti af aðlögun þeirra að breytilegu umhverfi. En það breytir engu um þá undarlegu heimsmynd sem nativistar hafa búið sér til þar sem skilgreiningar eru fljótandi, hugmyndir eru þokukenndar og hvergi er að finna rökrænt samhengi. Frumbyggjahyggja byggist ekki frekar á vísindum en „staðarefniviður er bestur“. Það er mjög óheppilegt að þessi ismi hafi ratað inn í opinbera stefnu og löggjöf í mörgum löndum, þar á meðal á Íslandi.

Frumbyggjahyggja er lúmsk og skaðleg hugmyndafræði sem mun ekki þjóna skógum eða okkur mönnunum vel í framtíðinni, neitt frekar en „staðarefniviður er bestur“ mun gera. Sífellt betri og meira sannfærandi rannsóknir benda til þess að hraðfara loftslagsbreytingar eigi sér stað og að þær verði ofsafullar víða um heim.

Skógar eru geysilega mikilvægir við að draga úr og aðlagast loftslagsbreytingum. Á sama tíma eru skógar oft seinir að endurnýja sig eftir rask. Stundum jafna þeir sig ekki, stundum þurfa þeir hjálp og stundum þarf sú hjálp að vera í formi gróðursetningar nýrra tegunda eða kvæma sem líklegt er að sýni betri aðlögun en það sem fyrir var. Ef okkur á að takast að aðlagast loftslagsbreytingum verðum við að hafa vísindi að leiðarljósi, en ekki isma.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson