Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, er aðalhöfundar nýrrar ritrýndar vísindagreinar sem komin er út í tímaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Þar eru settar fram vaxtarjöfnur fyrir sitkagreni á Íslandi sem nýtast til að bæta gerð áætlana um ræktun, umhirðu, nytjar og bindingu sitkagreniskóga hérlendis.
Árlegar mælingar á skógum landsins eru nú hafnar og fara mælingaflokkar Skógræktarinnar um landið næstu vikurnar til að taka út þá mælifleti sem á dagskrá eru í sumar. Verkefnið kallast Íslensk skógarúttekt. Fyrsti mæliflöturinn þetta sumarið var í ungskógi í Esjuhlíðum og nýttist m.a. við samstillingu mælitækja og hugbúnaðar. Í sumar verður bætt við mæliflötum til að safna gögnum um sjálfsáningu trjátegunda.
Auglýst er eftir fimmtán nýjum búum í nautgriparækt til þátttöku í Loftslagsvænum landbúnaði sem er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmið verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu. Umsóknarfrestur er til 20. júní.
Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, er meðal höfunda nýrrar vísindagreinar sem birtist í júníhefti vísindatímaritsins Global and Planetary Change. Þar er uppruni rekaviðar á norðanverðu Langanesi rakinn að mestu til vatnasviðs Yenisei-fljótsins um miðbik Síberíu og timbrið er að stórum hluta lerki og fura sem óx upp á síðustu öld. Gangi spár um minnkandi hafís eftir gera greinarhöfundar ráð fyrir því að enginn hafís berist lengur til Íslands eftir um fjörutíu ár.
Um 200 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands unnu að því á degi jarðar 22. apríl að stinga aspargræðlingum í rakan sandinn. Áhersla var lögð á vandaða vinnu frekar en afköst og ánægjan skein úr andlitum flestra í hópnum. Stefnt er að því að allir nemendur skólans fái að gróðursetja á hverju vori framvegis.