Tugir skógarbænda hvaðanæva af landinu komu saman á málþingi sem fram fór á Varmalandi í Borgarfirði 14. október. Viðburðurinn var angi af degi landbúnaðarins hjá Bændasamtökum Íslands. Fjölbreytt erindi voru flutt á málþinginu og þau eru nú aðgengileg á glærum og myndböndum á vefnum.

Á málþinginu flutti Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, erindi fyrir hönd Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra þar sem tæpt var á umræðunni um svokallaðan staðarefnivið sem gjarnan er haldið fram að sé æskilegastur til ræktunar, einkum í umræðunni um líffjölbreytni. Þröstur bendir á að hafa þurfi vísindin að leiðarljósi frekar en „isma“ byggðan á hugmyndafræði sem ekki eigi sér stoð í vísindum.

Erindi flutti líka Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, og talaði m.a. um áherslur bænda í umhverfis- og loftslagsmálum. Eygló Björk Ólafsdóttir, skógarbóndi í Vallanesi á Héraði, lýsti því hvernig skógar og skjólbelti á jörðinni styðja með margvíslegum hætti við aðra starfsemi á búinu, meðal annars viðarnytjar og orkuvinnsla auk skjóls og grósku. Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor fræddi fundarfólk um sveppi og sveppanytjar og Elisabeth Bernard hjá Skógræktarfélagi Íslands um matvæli úr skógi.

Að loknu hádegishléi sagði Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, frá nýrri bók um skiptiferðir íslensks og norsks skógræktarfólks og því næst fræddi Dagbjartur Bjarnason, skógarbóndi á Brekku í Dýrafirði, fundarfólk um norræna fjölskylduskógrækt. Agnes Geirdal talaði svo um býflugnarækt og starfsemi Býflugnaræktendafélags Íslands. Cornelis Aart Meijles hjá RML talaði um heilbrigt jarðvegslíf og spurði hvort bóndinn yrði læknir framtíðarinnar. Egill Gautason, lektor við LbhÍ, fjallaði um vandamál í íslenskri kornrækt og mikilvægi skjólbelta í þeirri grein, meðal annars til að ná upp hita á vaxtartíma kornsins.

Síðustu erindin á málþinginu eftir kaffihlé voru erindi Jóhanns F. Þórhallssonar, skógarbónda í Brekkugerði Fljótsdal, um hagaskógrækt, erindi Lárusar Heiðarssonar, skógarbónda og sérfræðings hjá Skógræktinni, um við og umhirðu, Eiríkur Þorsteinsson hjá Trétækniráðgjöf talaði um iðn og við en að lokum fjallaði Björgvin Eggertsson, brautarstjóri við Garðyrkjuskólann/FSU um hvernig skógarbændur gætu gert skóginn sinn verðmætari.

Búgreinadeild skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands stóð fyrir málþinginu ásamt skógarbænda­félögunum fimm í landshlutunum, í samstarfi við Skógræktina, Garðyrkjuskólann á Reykjum, Land­búnaðar­háskóla Íslands, RML og Skógræktarfélag Íslands. Allnokkur fyrirtæki styrktu líka framtakið.

Texti: Pétur Halldórsson