Sól og blíða og 20 stiga hiti var í Kristnesskógi í Eyjafirði þriðjudaginn 23. ágúst 2016 þegar þar var formlega vígður nýr stígur sérstaklega  hannaður með þarfir fatlaðra í huga. Við athöfnina var vitnað í Hippókrates lækni sem lýsti þvi fyrir 2.400 árum að skógur og falleg náttúra bætti gróanda hjá fólki og hefði jákvæð heilsufarsáhrif.

Vígslan fór fram á fallegum útsýnisstað syðst í skóginum þar sem sér vel til suðurs yfir Eyjafjarðarsveit. Fyrst tók til máls Herdís Ingvadóttir, formaður Sjálfsbjargar á Akureyri og nágrenni. Hún bauð gesti velkomna og lýsti í máli sínu ánægju sinni með að Sjálfsbjörg skyldi hafa tekið þátt í gerð þessa stígs sem ætti eftir að gagnast mörgum. Hann væri góð viðbót við annars góða aðstöðu til endurhæfingar í Kristnesi.

Því næst talaði Ingvar Þóroddsson, forstöðulæknir endurhæfingardeildarinnar í Kristnesi, og ræddi um að ekki hefði verið tilviljun að berklahælinu skyldi hafa verið valinn þar staður. Eins og Helgi magri settist að í Kristnesi á sínum tíma hefði hælið verið reist þar vegna heita vatnsins og vegna þess að falleg náttúra hefur góð áhrif á sál og líkama. Hippókrates hefði lýst því fyrir 2.400 árum hvernig skógur og falleg náttúra bætti gróanda hjá fólki og hefði jákvæð heilsufarsáhrif. Með nútímarannsóknum hefði því verið lýst hvernig skiliningarvitin nema umhverfið, heilinn móttekur boðin og sendir áfram til ýmissa stöðva líkamans. Allir gætu fundið hjá sjálfum sér að á einhverjum stundum þar sem þeir voru staddir á fallegum stöðum hefðu þeir fundið fyrir jákvæðum hlutum. Einn af grunnþáttum endurhæfingar væri að fólk hreyfði sig og þessi bætta aðstaða myndi hjálpa til í starfinu í Kristnesi. Á nýja stígnum væri bæði hægt að njóta útsýnis og sjá vítt en einnig þröngt inni í skóginum enda þyrftu sumir meira á umhverfi að halda sem veitti nokkurt aðhald.

Þau Herdís nefndu bæði að það væri jákvætt hvernig að stígagerðinni hefði verið staðið, frumkvæði Skógræktarinnar sem fékk Sjálfsbjörgu í lið með sér og spítalann. Verkið varð að veruleika með styrkjum sem Sjálfsbjörg sótti um hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Loks ávarpaði Rúnar Ísleifsson, skógarvörðurinn á Norðurlandi, samkomuna. Hann sagði að síðustu áratugi hefði verið lögð áhersla á að opna þjóðskógana fyrir almenningi og opnun sérhannaðs stígs fyrir fatlaða væri áfangi á þeirri braut. Meiningin væri að koma upp slíkri aðstöðu víðar í skógum á næstu árum og Vaglaskógur gæti orðið þar næstur í röðinni.

Rúnar rakti sögu skógarins í Kristnesi. Hún væri samofin sögu Kristneshælis sem tók til starfa 1927. Um 1940 fékk spítalinn til afnota landið fyrir ofan, um 24 hektara, algjörlega skóglaust land. Fyrst var gróðursett birki í skjólbelti og fram til 1956 var mikið gróðursett. Að því vann starfsfólk spítalans ásamt fleirum sem tengdust stofnuninni. Áfram var eitthvað gróðursett fram til 1980 þegar Skógrækt ríkisins fékk svæðið til umsjónar. Skógræktin jók þá gróðursetningu og nú má segja að allt svæðið sé skógi vaxið. Birki er áberandi og eins lerki, greni og fura. Rúnar segir að halda þurfi áfram að grisja skóginn en í því starfi sé mikilvægt að taka tillit til þess að svæðið er mikið notað til útivistar. Hann þakkaði loks verktökum sem unnu að stígagerðinni fyrir vel unnin störf.

Að sjálfsögðu var síðan boðið til veitinga, drukkið ketilkaffi í boði Skógræktarinnar og snætt meðlæti í boði Kristnesspítala. Milli 30 og 40 manns voru við vígsluna, fulltrúar Skógræktarinnar, starfsfólk Kristnesspítala, félagsfólk í Sjálfsbjörgu, starfsfólk á endurhæfingarstöð Sjálfsbjargar, Bjargi, Ólafur Ólafsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, heimafólk og fleiri.