Einn elsti skipulagði skógarlundur landsins. Grundarreitur er í Eyjafirði, lætur ekki mikið yfir sér og virðist tilsýndar e.t.v. ekki sérstakur. Hann er þó ekki síður merkilegur en Furulundurinn á Þingvöllum og hefur svipaða sögulega og fræðilega þýðingu fyrir skógrækt. Þessir tveir staðir marka upphaf skógræktar á Íslandi.
Staðsetning og aðgengi

Skógurinn er ofan við veg þegar komið er að kirkjustaðnum Grund í innanverðum Eyjafirði. Hafa þarf augun hjá sér þegar ekið er í nágrenni Grundar því reiturinn getur auðveldlega farið fram hjá fólki ef það hefur ekki augun hjá sér. Stæði eru fyrir nokkra bíla þar sem gengið er inn í skóginn.

Um reitinn liggja stígar og ýmsar trjátegundir eru merktar með tegundarheiti og gróðursetningarári. Reiturinn er því vísir að trjásafni. Áningarstaður með borðum og bekkjum er í miðjum reitnum. Í Grundarreit hafa verið haldnar listsýningar og aðrir viðburðir, en það merkilegasta við reitinn eru trén sjálf sem flest eru meira en aldargömul.

Sumarið sem byrjað var að gróðursetja til Furulundarins á Þingvöllum, árið 1899, fóru þeir Carl H. Ryder og Einar Helgason norður í land í leit að hentugum stað fyrir sambærilegar skógræktartilraunir og hafnar voru á Þingvöllum. Bauð stórbóndinn á Grund, Magnús Sigurðsson, fram land til tilraunarinnar endurgjaldslaust og hafist var handa við gróðursetningu í 1,6 ha reit árið 1900. Girðingin var svo stækkuð 1952 og er reiturinn nú rúmlega þrír hektarar að flatarmáli. Skógræktin hefur haft umsjón með Grundarreit frá því að stofnunin tók til starfa 1908.