Skógræktin hefur séð um friðun og viðhald Þórsmerkur í 90 ár. Á hverju sumri koma hópar sjálfboðaliða hvaðanæva úr heiminum til að vinna að landbótum og stígamannvirkjum á Þórsmörk og nágrannasvæðum. Óvíða ef nokkurs staðar á Íslandi er staðið betur að slíkum mannvirkjum. Leitast er við að fella þau eftir megni að landslaginu og fela þau eins og hægt er. Notaður er viður úr íslensku þjóðskógunum og mikið er unnið að því að veita rigningar- og leysingavatni í örugga farvegi svo að það rjúfi ekki gróðurþekjuna eða skemmi stígana. Jafnframt er unnið að því að lagfæra rofsár og stöðva vatnsrof eða skemmdir vegna átroðnings utan markaðra gönguleiða. Með friðun Þórsmerkur hefur birki sótt mjög fram og verður ásýnd svæðisins grænni og gróskumeiri með hverju árinu sem líður.