Þetta myndband sýnir hvernig nýta má lúpínu til að koma birkiskógi í rofið land með umhverfisvænum hætti og byggja upp það fjölbreytta vistkerfi sem einkennir íslensku birkiskógana.

Grásteinsheiði og Grjótháls eru suður og upp frá Húsavík í 200-300 m hæð yfir sjávarmáli. Landið er illa rofið eftir aldalanga ofbeit, rofabörð eru virk og gróður eyðist. Engin gróðurframvinda er á melunum þrátt fyrir 30 ára beitarfriðun. Svona land losar mikinn koltvísýring út í andrúmsloftið og er því hluti loftslagsvandans. Lúpínu var sáð í nokkra mela árið 1993. Hún hefur síðan breiðst hægt út. Lúpínan er orðin gisin þar sem hún hefur verið lengst. Lúpínan hopar en skilur ekki eftir sig mikla grósku, nema þar sem birki var gróðursett nokkrum árum eftir að lúpínunni var sáð. Þar heldur lúpínan velli. Og birkið vex þar líka vel, sem það gerir ekki í grenndinni þar sem það hefur veirð gróðursett án lúpínunnar. Loðvíðir og fleiri tegundir sá sér í svæðið þar sem lúpínunnar nýtur við. Samspil lúpínu og birkis skapar því öfluga framvindu. Ljóst er að þarna er að myndast birkiskógavistkerfi með því fjölbreytta lífi sem því fylgir. Ljóst er einnig að búið er að snúa kolefnislosun í mikla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Þarna bíða 2000 hektarar eftir því að fá að gera sama gagn og hundruð þúsunda hektara á landinu öllu.