Halldór Sverrisson segir frá kynbótum á ösp gegn asparryði og til að finna vaxtarmikla klóna í nýju …
Halldór Sverrisson segir frá kynbótum á ösp gegn asparryði og til að finna vaxtarmikla klóna í nýju myndbandi frá Skógræktinni.

Skógræktin vinnur stöðugt að gerð myndbanda til að fræða almenning um skóga og skógrækt í landinu og sem fræðsluefni fyrir skógræktendur. Þrjú myndbönd hafa nú bæst í safnið.

Hlynur Gauti Sigurðsson, kvikmyndagerðarmaður Skógræktarinnar, var á staðnum þegar nýja bálskýlið í Laugarvatnsskógi var vígt á fullveldishátíð sem haldin var í skóginum laugardaginn 12. maí. Bálskýlið þykir hafa heppnast mjög vel og væntanlega verða sambærilegar byggingar reistar úr íslensku timbri í fleiri skógum á næstu misserum, til dæmis í Vaglaskógi og Hallormsstaðaskógi.

Skoða videó um bálskýlið á Laugarvatni

 

Einnig hefur Hlynur gert áhugavert myndband um lerkistauraframleiðslu sem hafin er á Héraði. Magnús Þorsteinsson, skógarbóndi í Miðhúsaseli, og Hörður Guðmundsson hafa keypt rússneska stauravél og nota lerkivið sem fæst við grisjun skógarins til að búa til þráðbeina staura.

Skoða videó um lerkistauraframleiðslu

 

Þriðja myndbandið sem Hlynur hefur sent frá sér á síðustu vikum er um asparræktun. Halldór Sverrisson, sérfræðingur á Mógilsá og einn fremsti sérfræðingur í asparræktun á Íslandi, hefur í áratugi rannsakað öspina og unnið að kynbótum hennar. Í Hrosshaga í Biskupstungum er rannsóknarreitur þar sem hann gerir tilraunir og rannsóknir á ösp. Í grófum dráttum má segja að verkefnið sé tvíþætt. Annars vegar er verið að kynbæta öspina til að þola betur asparryð og hins vegar að rækta upp hentuga klóna til timburframleiðslu. Í myndbandinu fer Halldór Sverrisson yfir helstu atriðin í þessu starfi.

Skoða videó um kynbætur og rannsóknir í asparrækt


Myndbandavefur Skógræktarinnar