„Ef ætlunin er að rækta skóg einhverra annarra tegunda efir fellingu lerkiskógar er rétt að hafa hra…
„Ef ætlunin er að rækta skóg einhverra annarra tegunda efir fellingu lerkiskógar er rétt að hafa hraðan á við gróðursetningu því fyrr en varir mun náttúran annars sjá um að rækta sinn eigin skóg,“ skrifar skógræktarstjóri. Myndina tók hann á gömlum örfoka mel sem lerki græddi upp en er nú að breytast af sjálfu sér í fjölbreyttan blandskóg eftir að lerkið var fellt

Skógræktarstjóri skrifar um náttúrlega endurnýjun í felldum skógi

Myndin sem hér fylgir er tekin í Hallormsstaðaskógi og sýnir augljóslega uppvaxandi ungskóg. Reyniviður er mest áberandi en einnig er mikið um birki og gulvíði. Sé grannt skoðað má greina eina unga lerkiplöntu hægra megin við miðja mynd og sennilega fjallaþin lengst til vinstri. Í skógarbotninum er reyrgresi ríkjandi, en einnig má greina hrútaber og vallelftingu. Svo eru tvær lúpínuplöntur lengst til hægri en þær eru þar nálægt slóð sem er í jaðri ungskógarins. Einnig glittir í lerkigreinar, sem eru óðum að hverfa í gróðurinn.

Fallegur ungskógur og í sjálfu sér þarf ekki meira en það í góða upplifun. Þekki maður sögu staðarins verður lestur myndarinnar hins vegar mun áhugaverðari. Þar til fyrir fáum árum síðan stóð þarna 15-20 m hár lerkiskógur gróðursettur árið 1951 – svokallaður Jónsskógur, kenndur við Jón Jósep Jóhannesson. Þetta var næsta gróðursetning lerkis á eftir Guttormslundi og upphaf árvissrar lerkigróðursetningar á Íslandi. Kvæmið var frá Síberíu og stóðst hafísárin með prýði en þoldi verr mildara loftslag undanfarinna áratuga. Kominn undir sjötugt var Jónsskógur hættur að vaxa og mörg trén tekin að hrörna. Hann var því felldur, timbrið sagað í borðvið og það sem ekki hentaði til þess var kurlað. Jónsskógur gegndi því vel sínu hlutverki sem nytjaskógur þrátt fyrir að vera af lélegu lerkikvæmi.

Var áður örfoka melur

Jónsskógur gegndi líka öðru mikilvægu hlutverki því hann var gróðursettur í örfoka mel. Það staðfesti Hildur Jónsdóttir, sem var sumarstarfsmaður á Hallormsstað árið 1951 og tók þátt í gróðursetningunni. Hún heimsótti skóginn fyrir fáum árum og dáðist mjög að breytingunum. Þá hafði skógurinn verið grisjaður og gróskan í skógarbotninum var gríðarmikil. Jónsskógur var því með fyrstu landgræðsluskógunum og sýndi það og sannaði að með lerki væri hægt að græða upp ónýtt land til verulegra verðmæta. Á meðan skógurinn óx greri melurinn og jarðvegur byggðist upp. Greinarnar og topparnir sem eftir urðu við skógarhöggið eru enn að bæta í jarðveginn.

Allt sjálfsáð

Þekki maður svolítið í vistfræði verður myndin enn áhugaverðari. Allt á myndinni er sjálfsáð. Skógarþrestir skildu eftir sig fræ reyniviðar og hrútaberja þegar þeir settust í lerkitrén. Þær tegundir komu sér fyrir undir lerkiskerminum og eru því eldri en birkið og gulvíðirinn sem hafa að mestu sáð sér inn á svæðið eftir fellingu lerkisins. Öflugur vöxtur reyniviðarins og reyrgresisins er til marks um þá miklu frjósemi sem byggðist upp undir lerkinu á þessum fyrrverandi mel á tæpum sjö áratugum.

Þegar talað er um sjálfgræðslu eða náttúrlega útbreiðslu skóga er oftast aðeins átt við birki. Reyniviður á mun erfiðara uppdráttar á berangri og bæði reyniviður og gulvíðir vaxa illa á rýru landi. Á frjósömu landi sem þessu er oftast svo þéttur graslubbi að tré eiga mjög erfitt með að sá sér þangað. Það er jarðvegsuppbygging, skuggi og fugladýrð lerkiskógarins sem skóp þær aðstæður að til gat orðið einstakur blandskógur með innlendum tegundum. Svona skóg hefur undirritaður nefnilega ekki áður séð og er þó alvanur að skoða skóga.

Annan lærdóm má draga af þessari mynd, nefnilega þann að ef ætlunin er að rækta skóg einhverra annarra tegunda efir fellingu lerkiskógar er rétt að hafa hraðan á við gróðursetningu því fyrr en varir mun náttúran annars sjá um að rækta sinn eigin skóg.

Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson