Viðað í hofið með rjóðurfellingu í Hallormsstaðaskógi

Rúmlega sextíu ára gamalt lerki í Jónsskógi í Hallormsstaðaskógi var rjóðurfellt til að afla viðar í hof ásatrúarmanna sem nú rís í Öskjuhlíð í Reykjavík. Nýlega blótuðu ásatrúarmenn í Jónsskógi til að þakka skóginum timbrið og biðja heilla þeim trjám sem upp vaxa í stað þeirra sem felld voru.

Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður Ríkisútvarpsins á Austurlandi, fjallaði um þetta í fréttum Sjónvarps og ræddi bæði við Sigurð Mar Halldórsson Svínfellingagoða, Baldur Pálsson, Freysgoða í Austurlandsgoðorði og Þór Þorfinnsson, skógarvörð á Hallormsstað. Fréttin er á þessa leið:

Skógræktin hefur í sumar fellt og þurrkað máttarviði í nýtt hof ásatrúarmanna sem reist verður í Öskjuhlíð. Þeir blótuðu sérstaklega í Jónsskógi á Hallormsstað til að þakka fyrir timbrið sem skógurinn gaf.

„Lýsi ég staðarhelgi, lýsi ég mannhelgi, lýsi ég blóthelgi. Lýsi ég véböndum, lýsi ég griðum, lýsi ég sáttum. Heill skóginum, heill skógarvættum, heill náttúrunni og heill máttarviðum vors hofs,“ sagði Sigurður Mar Halldórsson Svínfellingagoði þegar hann hóf athöfnina í Jónsskógi á laugardal.

Lerkinu í Jónsskógi á Hallormsstað var plantað árið 1951 en nú verður það notað í burðarvirki hofsins og bæði innri og ytri klæðningu. Aldrei áður hefur svo stórt hús verið byggt úr íslensku timbri en fyrsti áfangi með hvelfingu verður tæpir 400 fermetrar. Þegar hefur talsvert lerki verið fellt og flutt til þurrkunar hjá Skógræktinni á Hallormsstað. „Þetta er nú mesta magn sem við höfum þurft að afhenda í hús á Íslandi. Þetta eru einhverjir 30-40 rúmmetrar af söguðu efni sem fer í þetta hof,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi.

„Við vorum hér að þakka fyrir að hætti heiðinna manna fyrir það timbur sem kemur hér úr Hallormsstaðarskógi. Það verður notað í máttarviði í okkar hofi sem verið er að vinna að í Öskjuhlíð í Reykjavík,“ segir Baldur Pálsson, Freysgoði í Austurlandsgoðorði.

Íslenskir skógar eru flestir ungir og viður sem fellur til oftast úr grisjun. Nú var hins vegar ráðist í lokahögg enda rúmlega 60 ára gamalt lerkið nánast hætt að vaxa. „Lerkið er spretthlaupari ef við getum talað um spretthlaupara í skógrækt en það er hratt af stað og við 50 ára aldurinn fer að draga úr vextinum. Og þá er þá hagkvæmast að höggva niður og gróðursetja upp á nýtt,“ segir Þór.

Og goðarnir báðu nýjum trjám heilla. „Fyrir heilbrigðum og vel vöxnum skógi. Heil sú hin fjölnýta fold. Við höfum nú lagt goðahringinn á jörðina sem tákn fyrir hina eilífu hringrás gróðurs jarðar, lífs og umsköpunar náttúrunnar.“





Texti og myndir: Pétur Halldórsson