Þar sem ekki nýtur trjágróðurs á árbökkum er vatnsrof mun meira en þar sem trjárætur binda bakkana s…
Þar sem ekki nýtur trjágróðurs á árbökkum er vatnsrof mun meira en þar sem trjárætur binda bakkana saman og verja þá rofi. Ljósmynd: Sara L. Rathburn

Í ljós er komið að birki og gulvíðir duga mjög vel til að draga úr rofi við ár og læki. Það staðfesta rannsóknir dr. Söru L. Rathburn, jarðfræðiprofessors við Colorado State University. Hún mældi ásamt samstarfsfólki sínu rof við fjögur vatnsföll á Íslandi og bar svæði þar sem skógur óx við árbakkann saman við nærliggjandi skóglaus svæði við sömu ár.

Rannsóknin naut styrks frá Fulbright-sjóðnum bandaríska og voru niðurstöðurnar kynntar á ráðstefnu jarðfræðifélags Bandaríkjanna, Geological Society of America. Sara skoðaði árbakkarof við Fnjóská, Blöndu, Örnólfsdalsá við Norðtungu og Sandá í Þjórsárdal. Rannsóknirnar fólu í sér mat á undirlagi (sandur/möl) og þéttleika og dýpt róta mismunandi plöntutegunda. Svæði innan skógræktargirðinga voru borin saman við svæði utan þeirra, sem ávallt voru beitilönd án trjágróðurs.

Helstu niðurstöður voru þær að innan skógræktargirðinga voru þær trjátegundir sem uxu næst bökkunum einkum birki og gulvíðir. Það þekkir skógræktarfólk vel að birki og víðir sá sér gjarnan fljótt í land þegar það hefur verið friðað fyrir beit, ekki síst með fram ám og lækjum. Einnig náðu rætur stafafuru, rauðgrenis og aspar að bökkunum á nokkrum stöðum. Þar fundust líka stórvaxnar jurtir á borð við hvönn og lúpínu, ásamt grastegundum. Á beitta landinu uxu eingöngu grastegundir og aðrar smávaxnar jurtir með fram bökkunum.

Birki og gulvíðir mynduðu þéttustu og dýpstu rótarflækjuna í árbökkunum. Rætur furu, grenis og alaskaaspar voru gisnari. Stólparætur hvannar og lúpínu náðu djúpt og bættu þannig í rótarmassann sums staðar innan skógræktargirðinganna. Utan girðinga voru rætur (einkum gras) bæði mun minni og náðu grunnt. Ræturnar höfðu síðan mikil áhrif á reiknaðan hraða rofs í árbökkunum, sem var mestur þar sem enginn trjágróður var og minnstur þar sem birki og gulvíðir voru ríkjandi.

Nú bætast þessar niðurstöður við aðrar, sem fyrir liggja, um jákvæð áhrif trjá- og runnagróðurs með fram ám á vatnsgæði, fiskigengd og ýmislegt annað í lífríkinu. Um leið og ástæða er til að hætta að nota rofið land til beitar búfjár, er einnig ástæða til að sleppa beit með fram vatnsföllum svo birki og víðir geti numið þar land.

Texti: Þröstur Eysteinsson
Myndir: Sara Rathburn
Sett á vef: Pétur Halldórsson
Heimild: Rathburn, S., Eysteinsson, Þ., Sæmundsson, Þ., Kemper, J., Wieting, C., 2022, Root distribution, tensile strength, and streambank cohesion of taxa used in afforestation along Icelandic rivers, Geological Society of America Abstracts with Programs, Vol. 45, No. 5, doi:10.1130/abs/2022AM-379473