Í erindi sem Gísli Már Gíslason, prófessor í ferskvatnslíffræði við Háskóla Íslands, flutti á Raunvísindaþingi 16. apríl sl., fjallaði hann um samspil gróðurþekju á vatnasviðum fallvatna og þess lífríkis sem þrífst í sömu fallvötnum. Niðurstaða hans í erindinu var sú að lífríki og fiskigengd fallvatna réðist að mestum hluta af því lífræna efni sem félli í þau. Þess vegna er framleiðni í íslenskum ám mun minni en í sambærilegum ám í Skandinavíu, þar sem vatnasviðið er að mestu vaxið skógi. Því meiri skógur, því meiri fiskigengd. Vegna þess að skógum Íslands hefur verið eytt á umliðnum 11 öldum sé fiskigengd í íslensku ferskvatni aðeins svipur hjá sjón frá því sem var við landnám, þegar land var „viði vaxið milli fjalls ok fjöru“.

Í framhaldi af erindinu tók Leifur Hauksson viðtal við Gísla Má á Rás 1 Ríkisútvarpsins. Samantekt úr erindinu, ásamt viðtalinu, sem flutt var þann 20. apríl sl., birtist hér með góðfúslegu leyfi Gísla Más og Leifs.

Hversu ósnortin eru íslensk vatnsföll?
Gísli Már Gíslason, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Öskju, Sturlugötu 7, 101 Reykjavík
Ágrip fyrirlesturs sem haldinn var á Raunvísindaþingi, 16. apríl 2004.

Jarðfræði, landslag og gróðurþekja vatnasviða ákvarðar efnasamsetningu og áburðarinnihald vatna, sem hefur áhrif á samsetningu og þéttleika dýralífs í ám og göngur laxa. Tegundasamsetning dýra í vatnsföllum ákvarðast m.a. af lífrænum ögnum í vatninu. Lirfur bitmýsins finnast oft í miklum mæli við útföll stöðuvatna og sía þar agnir sem reka með straumi. Rykmý er ríkjandi í ám sem byggja á eigin frumframleiðslu botnþörunga. Aftur á móti er lítill þéttleiki tegunda, eins og vorflugnalirfa, sem lifa á áfoknum lífrænum ögnum af vatnasviðinu, eins og trjálaufi og sinu. Þessa fæðugerð vantar oftast í íslenskar ár. Lax gengur aðallega í ár sem falla af vel grónum vatnasviðum, þar sem stöðuvötn hafa áhrif á framleiðni ánna. Góð fylgni er á milli fjölda laxfiska og gróðurþekju vatnasviðanna. Í ám sem eiga upptök á ógrónum eða lítt grónum vatnasviðum er yfirleitt ekki lax.

Stærsti hluti orku (>95%) sem fer um lífríki vatnsfalla í laufskógum norðurhvels jarðar er upprunninn í rotnandi laufi sem fellur til jarðar á haustin og berst í árnar með vindum. Þessi lauf eru síðan brotin niður af vorflugum og öðrum stórum vatnaskordýrum í smærri agnir, sem nýtast smærri botndýrum. Maðurinn hefur gjörbreytt gróðurfari á Íslandi frá landnámi. Þar sem áður var gróið land og skóglendi er núna meira eða minna ógróið hálendi og gróður á láglendi einkennist af lágvöxnum holta- og melagróðri, mýrlendi og ræktarlandi. Einnig hefur rennsli sumra vatna verið breytt með virkjunum, vegagerð, framræslu votlendis, malarnámi og fleiri verkum.

Færa má rök fyrir því að framleiðsla í vatnsföllum hafi verið miklu meiri en hún er í dag, þegar landið var „viði vaxið milli fjalls og fjöru“ og einnig hafa aðrar breytingar á vatnsföllum haft áhrif á lífríki þeirra.

„Hversu ósnert eru íslensk vatnsföll? - Viðtal Leifs Haukssonar við Gísla Má Gíslason, prófessor,  í þættinum „Vangaveltur“ á Rás 1 Ríkisútvarpsins, 20. apríl 2004.

Hversu ósnert eru vatnsföllin af mannanna höndum? Gísli Már Gíslason, prófessor við Líffræðistofnun Háskólans hefur velt þessu fyrir sér og fjallaði um það á Raunvísindaþinginu. Ég settist niður með honum og bað hann að segja mér frá.

Gísli Már Gíslason, prófessor: Ég byrjaði að hugsa um þetta svona í byrjun 10. áratugarins. Þá tók ég mig til ásamt tveimur Svíum og við söfnuðum saman öllu því sem við fundum um vatnsföll eða ár og læki á Norðurlöndum og reyndum að gera okkur grein fyrir dýrasamfélögum sem voru í þeim og hvaða eiginleika þau hefðu og hvað ákvarðaði þessi dýrasamfélög sem eru þar. Og þá sáum við fljótt að skóglaus svæði og gróðurlítil svæði eins og Ísland er í dag ásamt kilinum í Skandinavíu eru með allt önnur samfélög og það leiddi auðvitað hugann til þess hvaða breytingar hafa átt sér stað hér á vatnasviðunum, gróðurfarslegar breytingar og aðrar breytingar og hver hafa í rauninni verið áhrif mannsins á þetta dýralíf.

Leifur Hauksson: Þá ertu að horfa til tímans í raun og veru bara alveg frá landnámi og til dagsins í dag.

Gísli Már Gíslason: Já já, og ég held að það hafi nú verið bara satt sem Ari Fróði segir í Íslendingabók að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Það eru ýmsar sögulegar heimildir fyrir því og það eru bæjarnöfn og öll Brautarholtin til dæmis þar sem menn voru að ryðja brautirnar heim að bæjunum, en það eru ekki síður þessar kolagrafir sem eru út um allt land. Hvar sem maður fer um heiðar og annars staðar þar eru kolagrafir sem segja manni að þar var þá gert til kola og það hefur ekki verið gert nema það hafi verið skógur. Jafnvel upp við Bláfell á Kili eru kolagrafir. Nú, síðan getur maður nú kíkt bara á Landnámu og sagt þeim frá Hrafna-Flóka þegar hann nemur, eða reynir að nema land í Vatnsfirði, að þá var mikil veiði og veiðiskapur sem meðal annars varð til þess að hann sinnti  ekki búfénu. Þannig að það má gera ráð fyrir því að hér hafi verið miklu meiri frjósemi í öllum ám og lækjum en við þekkjum í dag einmitt vegna þess að vatnasviðið, þar sem vatnið safnast saman áður en það fer að renna út í þessa ..., þau voru allt öðruvísi gróin, þau námu allt sólarljósið og breyttu því í gróður og þessi gróður að stórum hluta gat endað í ánum, bara fokið þangað sem laufblöð á haustin og þannig verið fæðuuppspretta.

Leifur: Skoðum þetta mál aðeins betur: hvernig þú ferð að því að fá út þær breytingar.

Gísli Már Gíslason: Í fyrsta lagi settum við upp þessar rannsóknir fyrir Norðurlöndin öll og tókum saman það sem til var skrifað og gerðum okkur grein fyrir þessu dýralífi í ánum og straumvötnunum og lækjunum. En síðan settum við hér af stað, ég og Hákon Aðalsteinsson og Jón S. Ólafsson, við Jón erum hér á Líffræðistofnun og Hákon á Orkustofnun, ásamt svo fjölda stúdenta stórt og mikið rannsóknarverkefni þar sem við í rauninni skoðuðum dýralíf í ám á Íslandi frá upptöku til ósa. Sem sagt, hver á var tekin alveg frá fyrstu upptakadrögum eða þar sem hún féll út úr stöðuvatni, og svo með reglulegu millibili þar til hún féll í sjó, og litum á þessi vötn og þá komumst við að því að það sem mótaði dýrasamfélögin mest var gróðurfar á vatnasviðinu, það var hvort það voru stöðuvötn á vatnasviðinu, það voru uppleyst steinefni sem oft á tíðum voru tengd gróðurfarinu, hvort það lak úr jarðvegi eða hvort það lak af söndum og þar með áburðarefni, hæð yfir sjó sem segir til um hita, þannig að það var ekki sama dýralíf efst og neðst, og síðan hvort það var jökulvatn í þessum ám. Jökulvatn er eiginlega sér kapítuli út af fyrir sig. Og prójektið var stutt af  Rannsóknarráði Íslands og jafnframt vorum við með stóran Evrópustyrk við að skoða hálendisárnar og jökulárnar, sem var mjög stór styrkur á þeim tíma 1995 þegar við fengum hann, og stúderuðum þá jökulvötn og hálendisár og læki frá Pýreneaskaganum og norður á Svalbarða og reyndum að átta okkur á því hvað mótaði einmitt dýrasamfélögin á öllu þessu sviði. Og þá sjáum við einmitt þetta, það er einmitt gróðurþekjan á vatnasviðinu sem er ákvarðandi þáttur í dýralífinu. Sko, það eru til skrifaðar heimildir og mjög merk heimild auðvitað Jarðabókin sem er að lýsa skógum og skógarleifum. Til dæmis uppsveitir Árnessýslu, að þá er skýrt frá því að skógi..., þar er eiginlega skógi vaxið úr Landssveit og upp að Sandafelli þar sem Sultartangalónið er, meira og minna, þarna eru Landsskógar og þarna eru Árskógar og svo eru Fitjaskógar og Bláskógar og sumir eru jafnvel það miklir að þetta eru kallaðir raftaskógar, það er hægt að taka bolina og gera sperrur úr þeim, svo voru þetta kolaskógar og svona annað. Og Jarðabókin var skrifuð í upphafi 18. aldar en jafnframt kemur það fram  skýrt að skógar eru alls staðar á undanhaldi og gróðurfar er alls staðar á undanhaldi. Þetta er líka hægt að lesa úr jarðvegsþykkninu og frjókornagreiningum og mjög merkar rannsóknir sem hafa verið stundaðar hérna af jarðfræðingum, bæði Þorleifi Einarssyni og svo seinni tíma jarðfræðingum þar sem gróðurfarssaga landsins er mjög þekkt og yfirleitt er allt láglendi og upp fyrir 400 metra meira og minna þakið birki við landnám. Og svo gerist það bara á 11., 12. öld að þessir skógar eru farnir að láta mikið á sjá, til dæmis eins og holtin í Reykjavík, Þingholtin og Rauðarárholtið, birkið er horfið þar upp úr árinu 1000, og það er þetta sem maður hefur meðal annars í huga, en þar voru þessar leifar alveg fram á seinustu aldir. Sturlunga skýrir frá því hvað landið er vel gróið. Gissur jarl fer með sennilega 4 þúsund hesta yfir Kjöl án þess að þurfa að hafa með trukka með hey til þess að gefa þeim, þegar hann er að fara í Örlygsstaðabardaga við Sighvat Sturluson.

Leifur: En hvaða máli skiptir, á hvaða hátt skiptir það máli hvort það er skógur á árbakkanum eða hvort að það er þykkt og gjöfult gras?

Gísli Már Gíslason: Það felst í lauffallinu þar. Skógurinn fellur ekkert allur, stofnarnir standa þannig að framleiðslan er fyrst og fremst í laufblöðum sem falla niður og er geysilega mikill lífmassi og yfirleitt fjúka þessi laufblöð til og frá,  sérstaklega þegar þau fara að skrælna, og enda í vatni og enda auðvitað þá í upptakalækjunum og í ánum og mynda þá samfélög stórra vatnadýra, skordýra eins og vorflugna og steinflugna sem eru að brjóta niður þessi laufblöð og þetta er auðvitað sú fæða sem fiskurinn sækist fyrst og fremst í, þetta eru stórir góðir bitar, án þess að hafa neitt svona rusl með, í staðinn fyrir að vera að éta rykmý sem eru pínulítil kvikindi, sem er uppistaðan í dag því að lífsamfélögin í vötnum í dag, sérstaklega á gróðursnauðum svæðum, þar eru rykmýslirfur sem eru að skafa þörungagróðurinn ofan af steinunum sem myndast bara af því ljósi sem fellur á vatnið sjálft en ekki á vatnasviðin í kring. Þannig að þetta er miklu minna svæði sem er að skapa lífræn efni sem er fæða fyrir pöddurnar. Nú svo höfum við í gegnum tíðina verið að eiga við þessi vatnasvið, allar láglendismýrar á Íslandi eru svo til horfnar, það eru kannski 2%-3% eftir af því sem var í upphafi 20. aldarinnar. Það hefur geysileg áhrif á rennslissveiflur og gerir þá árnar miklu óstöðugri, það leysast örugglega ýmis efni úr mýrunum eins og járn og annað sem, að minnsta kosti í Danmörku, hefur neikvæð áhrif á dýralíf, og veldur rofi því það rofnar úr þessum skurðum og öðru sem gerir vatnið gruggugra og þar með verður minni framleiðsla. Þetta eru sennilega þeir stærstu þættir sem við höfum verið að fikta í fyrir utan sko alla hina, stíflur, rennslisjafnanir ...

Leifur: En er hægt að greina á milli til dæmis, ja hvað er þarna í gegnum aldirnar af mannavöldum og síðan náttúrulega, hvað gerist vegna hlýnandi, kólnandi veðurfars, breytinga á náttúrunni að öðru leyti?

Gísli Már Gíslason: Sko, frá ísöld höfðu orðið ýmsar veðurfarsbreytingar sem hægt  er að lesa meðal annars úr setlögum og mýrum í  gróðurgreiningum. Og vissulega má segja að slíkt hefur áhrif á gróður og það verða að breytast gróðursamfélögin en ég held að, að minnsta kosti skógareyðingin og svo til öll landeyðing, það megi meira og minna rekja til umsvifa mannsins. Lítum á kjarri vaxið land og bara lyngvaxið land, ef það verður mikið öskufall á slíku landi þá standa runnarnir eftir sem áður upp úr öskunni og eru á lífi, þannig að ræturnar lifa eftir sem áður og halda jarðveginum í skefjum og jafnvel þó að tímabundið verði einhver dauði á gróðri þá lifir þessi runnagróður, heldur öllu saman, svo fýkur jarðvegurinn af og undirgróðurinn nær sér strax aftur. Þegar það er búið að eyða skóginum og ef það verður öskufall þá kafnar allur gróður, hann er dauður og þegar askan fýkur til þá fýkur jarðvegurinn líka með. Þetta er stóri munurinn og menn geta sagt, það er öskufallið og öll eldgosin sem gera þetta en það mundi ekki verða þessi gróðureyðing nema að það væri búið að eiginlega undirbúa jarðveginn fyrir það með því að eyða skógi og runnagróðri. Þannig að ég held að öll gróðureyðing á Íslandi sé á beinan eða óbeinan hátt af mannavöldum.

Leifur: En þarna munar mikið um það, eftir því sem þú segir, hvort að við erum að tala um lífmassa og orku í formi stórsteikur eins og góðra laufblaða eða hvort það eru lítil og pervisin grasstrá sem eru að detta ofan í árnar. Við erum  nú með eitthvað af trjám en við erum kannski yfirleitt með gras á árbökkum.

Gísli Már Gíslason: Alls staðar, sko ég er búinn að vera að reyna að kíkja eftir þessu og það sem maður sér svona helst að einhverjir runnar eða kjarr er niður að árbökkum, það er við Laxá í Suður-Þingeyjasýslu þar sem Varastaðaskógur kemur og Laxá er í rauninni eini staðurinn  þar sem maður finnur svolítið magn af stórum vorflugulirfum, jafnvel upp í 2,5 sentimetra á lengd stærstu tegundirnar, en samt í heildarfjöldanum er þetta innan við 5% og Mývatn er auðvitað ruglað að sumu leyti af,... eða Laxá af Mývatni sem er með þessa miklu framleiðslu og alla þörungana sem rekur niður ána og bitmýið svo stendur þarna ... og bara étur þetta.

Leifur: Þú varst að tala um þessar mismunandi aðstæður áðan þegar þú varst að flokka þetta niður og við höfum svæði, allt frá því að vera grösugir og fallegir árbakkar upp í  einhverjar sprænur rennandi um gróðurvana svæði. Þar er nú ekki mikil framleiðsla á næringarefnum.

Gísli Már Gíslason: Nei. Við eigum alveg ómetanleg gögn til þess að skoða og bera þessar ár saman og ég gerði það einmitt og skýrði frá því á Raunvísindaþinginu, og það er að miðað við hlutfall á vatnasviði sem voru stöðuvatn og þar sem voru gróin lönd og hver var svo laxagengdin í vötnin því við eigum tölfræði fyrir laxa frá 1974. Laxar eru efst í fæðupýramídanum og við getum notað þá sem svona vísitölu fyrir framleiðni. Og frjósömustu fallvötnin á Íslandi í dag eru þau sem renna úr stöðuvötnum af vel grónum vatnasviðum, þar sem um helmingur af vatninu í ánum sjálfum á upptök sín í stöðuvatni eða stöðuvötnum og þar er alveg geysilega sterk samsvörun á milli laxveiðinnar og stærðar vatnasviðsins sjálfs sem er gróið eða í stöðuvötnum. Síðan eru þessi grónu vatnasvið sem eru mýrlendi og svona hálendismýrar, Arnarvatnsheiðin, Tvídægra, Holtavörðuheiðin og síðan upp af Þistilfirðinum og þar er líka alveg bein samsvörun með stærð gróins hluta vatnasviðanna og og laxagengd. Síðan erum við með árnar sem koma af gróðurlitlum eða gróðurlausum auðnum, eða mosaþembum uppi á háheiðum á Vestfjörðum og Austfjörðum, þær  eru alveg laxlausar, eða örfáir laxar sem veiðast. Þannig að þarna erum við með mjög sterkar vísbendingar um áhrif gróðursins, þannig að það er mjög marktæk fylgni þarna á milli. Við höfum svona upplýsingar og þegar gróður - skógargróður - bætist inn í má segja að stór hluti af þeirri framleiðslu sem verður á vatnasviðinu endar í ánum þegar laufblöðin og kvistirnir og annað fýkur út í. Það gerist ekki þegar þetta vantar, og ég tala nú ekki um gróðurlaust land. Þá eru árnar gagnslausar. Og við getum bara horft á laxveiðina, hvar eru laxveiðar á Íslandi? Þær eru í þessum ám sem renna úr frjósömum stöðuvötnum, Mývatni, Elliðavatni, Þingvallavatni sem er svo stórt að það er tiltölulega mikið sem rennur úr því af þörungum og heldur uppi mýstofnunum. Síðan kemur um helmingur af öllum laxi af heiðunum upp af Borgarfirði og upp af Húnaflóanum, heiðunum norðvestan við Langjökul, Arnarvatnsheiðinni, Tvídægru, Holtavörðuheiðinni, Auðkúluheiðinni og öllum þessum, og svo þarf maður að fara alveg norður í Laxá í Suður-Þingeyjasýslu, þar sem er laxveiði, og svo í Vopnafjörðinn sem er upp af Þistilfirðinum. Þannig að við getum bara horft á hvar er gróið land og hvar eru stór stöðuvötn og lindavötn og hvar er lax.

Leifur: Þarna erum við að tala um þessar breytingar á lífkerfinu og vistkerfinu eins og þú ýjaðir aðeins að áðan, síðan höfum við mennirnir verið að krukka í vatnsföll og haft áhrif á þau með beinum hætti eins og með stíflugerð eða breytingum á rennsli eða farvegi eða öðru slíku og þá sögu höfum við nú nokkuð vel skráða, er það ekki?

Gísli Már Gíslason: Já, hún er að stórum hluta 20. aldar saga. Þegar fyrstu virkjanir landsins,  sem voru í ám og stöðuvötnum, þar sem stöðuvatnið gat verið lónið, þurfti ekki að búa til lón, það var hægt að stýra rennslinu um stöðuvötn. Og við erum með Sogsvirkjanirnar, við erum með Andakílsá og ég tala nú ekki um elstu stóru virkjunina sem var í Elliðaánum með stýringunni þar og svo úr Mývatni í Laxá í Suður-Þingeyjasýslu. Og það var ekki fyrr en við réðum við að beisla jökulárnar, í lok 7. áratugsins, að Búrfellsvirkjun kemur og síðan má segja að allar stórar virkjanir séu í jökulám. En þá fylgir því að þar er verið að búa til uppistöðulón í staðinn fyrir vötnin sem voru fyrir og þá lenda þessar dældir þar sem er einhver raki í jörðu og þessar seinustu leifar af gróðri,  þær lenda undir þessum lónum. Og við þekkjum öll styrinn sem hefur verið í kringum Þjórsárver. Upphaflega átti að gera þar 200 ferkílómetra lón og kaffæra öll Þjórsárver sem síðan hefur verið smám saman trappað niður. Núna eru þarna 30 ferkílómetra lón sem veita vatninu í Þórisvatn. Þórisvatni var breytt í lónið sem átti að vera í Þjórsárverum. Nefna má deilurnar út af Kárahnjúkum, Hálsalónið stóra sem yfir gróið land, því að gróið land er það sem er lægra og þar sem vatn safnast fyrir í dag því annað er bara fokið á haf út. Og þar með höfum við auðvitað geysileg áhrif, bæði á vatnasviðið, vatnaflutninga til og frá því það er auðvitað lífríki í jökulánum, mjög sérstakt lífríki þó það sé ekki mikið.

Leifur: Þetta eru ekki dauðar ár.

Gísli Már Gíslason: Nei, nei. Það eru ákveðnar tegundir af skordýrum, svokallað kulmý sem er ríkjandi í þessum ám. Og við erum enn ekki búin að átta okkur á hvað lífsferlið tekur langan tíma en margar tegundir geta kannski verið  í mörg ár að vaxa upp í að verða fullorðin dýr. Þau hafa þarna kannski lítinn tíma á vorin áður en jökulvatnið fer að grugga allt en samt, sólin orðin það hátt á lofti að hún er búin að bræða ísinn af ánum. Þetta eru þá tærar ár með grunnvatni og þá getur myndast þörungagróðurinn sem þessar litlu lirfur lifa á og svo lokast þetta allt þegar vatnið verður gruggað og sólin hættir að skína á botninn. Þetta er svona það sem við erum að vinna, svona tilgáta sem við vinnum eftir. Því að þetta eigum við eftir að kanna. Við erum þó búin að fá að vita hvaða dýrasamfélög eru í þessu og það var einmitt það sem Evrópusambandið var að styrkja okkur að gera á sínum tíma. Það eru nú bara 10 þúsund ár síðan að allar ár í Evrópu voru jökulár. Menn mega bara ekki gleyma því! Þess vegna er þetta áhugavert út frá loftslagsbreytingum. Hverju eigum við von á? Þetta er það sem við höfum verið að breyta. Ég minntist á mýrarnar sem við þurrkuðum og hvaða áhrif það hefur haft. Við höfum verið að gera brýr og þá þrengjum við að ánum og það getur haft áhrif, sérstaklega í flóðum og truflar rennsli í gegn. Þetta er nú það vandamál sem stóru flóðin í Bandaríkjunum og í Evrópu eru að valda. Það er búið að setja árnar í kanala og stytta þær með því að taka allar sveigjur úr þeim þannig að þá verður meiri hætta á flóðum. Það er búið að setja brýr og þrengja að þeim þannig að það myndast stöðuvötn fyrir ofan þegar það er mikil leysing. Þannig að öll flóð í Evrópu eru meira og minna manngerð af því að það er búið að vera að fikta í ánum. Og við þekkjum þetta líka hérna. brýrnar þrengja svo að, að sumar ár eiga stutt eftir til að flæða út fyrir varnargarðana sem búið er að mynda eins og Hornarfjarðarfljót. Nú hvað höfum við gert fleira? Við höfum verið að djöflast á árósunum, við höfum verið að fylla upp í þessar leirur eins og úti fyrir Elliðaánum eða loka heilum fjörðum eins og Gilsfirðinum og þannig höfum við haft áhrif því eins og með fiskigengd  þá má ekki líta á eina á sem eitt stakt fyrirbæri, þetta er vistkerfi sem teygir sig út í sjó en hún teygir sig líka upp í vatnakerfið í kring, upp í hálendið og vatnasvið þar sem safnast saman vatnið sem endar í henni. Þannig að þetta er allt ein heild.

Leifur: Þannig að ... hve ósnortin eru vatnsföll? Niðurstaðan hlýtur eiginlega að vera sú að þau eru langt frá því að vera ósnortin. Það er vandfundið það vatnsfall sem ekki er búið að krukka í með einhverjum hætti ef það er hægt að gera það, ef það er eitthvað aðeins stærra en bæjarlækurinn bara.

Gísli Már Gíslason: Það held ég að sé alveg satt. Við erum búin að hafa áhrif á þau, sérstaklega  á rennsli þeirra og rennslishegðun og vatnasvið. En við erum þó það heppin í samanborið við nágrannalöndin, að við erum með tiltölulega lítið mengaðar ár. Við erum ekki með neinn verksmiðjurekstur sem er að setja einhvern óþverra út í árnar. Við erum heppnir vegna þess að Íslendingar búa við sjávarsíðuna. Ég held að það séu ekki nema 2% til 3% landsmanna sem búa í þéttbýli inni í landi. Við erum að tala um Selfoss, við erum að tala um Hellu, Hvolsvöll og Egilsstaði. Þetta eru stærstu þéttbýlin. Þar fer auðvitað skolpið út í árnar. Þær eru misstórar, Ölfusá tekur nú við miklu, hún er vatnsmesta á landsins. Þannig að mengunaráhrif hér eru mjög staðbundin og eru í rauninni fáar ár sem hafa orðið fyrir miklum slíkum búsifjum. Það eru þó Varmárnar, bæði í Ölfusinu og í Mosfellsbæ.

Leifur: En margt af því sem þú hefur verið að nefna eru hlutir sem hægt er að breyta til baka, það sem t.d. snýr að lífkerfinu, árbökkunum og annað þvíumlíkt, það er hægt að breyta þeim gróðri sem er til staðar, er það ekki?

Gísli Már Gíslason: Jú, jú, ég held að með góðu skipulagi gætum við látið þessar ár með tímanum nálgast upprunalegt ástand án þess að verða fyrir efnahagslegum búsifjum og jafnvel eiga skemmtilegri ár og frjósamari fyrir bragðið. Auðvitað eigum við m.a. að stefna að þessu. Evrópusambandið hefur samþykkt tilskipun sem við eigum væntanlega að lögfesta á þessu ári eins og allar aðrar Evrópuþjóðir og það er vatnatilskipunin. Og markmið hennar er að færa árnar í Evrópu eins nálægt upprunalegu horfi  og mögulegt er. Og þá á að horfa á hverja á fyrir sig sem stórt vatnavistkerfi og þá á ekki að setja reglur um hvað einstakir bæir eða verksmiðjur mega setja út í ána heldur á að horfa heildstætt á hvað vistkerfið þolir af efnum. Hvað þolir það miklar breytingar. Og þetta er eitt af því sem við þurfum að lögfesta mjög bráðlega og það er verið að vinna í því í ráðuneytinu. Og þessar rannsóknir sem við fengum styrktar af Evrópusambandinu voru  einmitt til þess að undirbúa flokkun vatna með tilliti til áhrifa mannsins fyrir evrópsku vatnatilskipunina. Þannig að nú erum við með slíkar upplýsingar í höndunum. Núna erum við að skoða þetta sérstaklega með öðrum Evrópustyrk sem við fengum í vetur sem er stærsti styrkur sem Evrópusambandið hefur veitt til nokkurs rannsóknarverkefnis í vistfræði. Við erum 39 háskólastofnanir sem stöndum að þessum styrk, sem sagt háskólar úti um alla Evrópu og við erum að skoða áhrif loftslagshlýnunar og áhrif mengunar á vötn í Evrópu. Okkar hlutur verður að skoða þetta saman. Á Hengilssvæðinu erum við með hlýjan læk og kaldan læk hlið við hlið. Það eru 10-20 metrar á milli þeirra. Og síðan erum við með votlendisgróður í opnunum þar sem er mýrargróður kaldur og hlýr hlið við hlið. Og síðan vötn og gerum ráð fyrir að við notum annað hvort Laugarvatn eða Mývatn, sennilega Mývatn þar sem heita vatnið kemur út í, þá erum við með víkur þar eða tjarnir innan um eins Kálfatjörn sem er hlý og kalt vatn utan við. Síðan munum við athuga muninn á samfélögum á þessum tveimur stöðum sem eru loftslagslega alveg eins. Og síðan gerum við tilraunir með t.d. að setja áburð út í, eins og áburðarmengun er hvort sem það er húsdýraáburður eða tilbúinn áburður og hvaða breytingar verða þegar vatnið  hefur hlýnað í hlýrri vötnunum miðað við kalda. Þannig ætlum við að reyna að meta áhrif loftslagshlýnunar á einmitt mengun í ám sem er til staðar um alla Evrópu. Það verður m.a. vonandi notað í framhaldinu þegar tilskipunin er búin að taka gildi og menn eru farnir að vinna eftir henni. Þessu á ekkert að ljúka í ár, hún tekur gildi í ár en það á að vinna áfram að henni fram til 2015.

Leifur: Þessi rannsókn hlýtur að taka töluverðan tíma.

Gísli Már Gíslason: 5 ár. Við verðum næstu 5 árin með þennan stóra og mikla styrk og ég bara hlakka til að takast á við þetta.