Rhett Jackson, til vinstri, og Nik Heynen, til hægri, prófessorar við Georgíu-háskóla við mælingar á…
Rhett Jackson, til vinstri, og Nik Heynen, til hægri, prófessorar við Georgíu-háskóla við mælingar á gæðum straumvatna á vatnasviðinu Upper Little Tennessee River Basin. Ljósmynd af phys.org

Vísindamenn við Warnell skógfræði- og auðlindaskólann, sem er hluti af Georgíuháskóla í Bandaríkjunum, hafa komist að því að þar sem landeigendur höggva trjágróður með fram ám og lækjum, til dæmis til að búa til tún eða beitiland , verða verulegar breytingar á lífríki og jafnvel fjölda lífvera í vatnsföllunum.

Grein um rannsóknina birtist í ritinu River Research and Application og sagt er frá henni á vísinda­frétta­vefn­um phys.org. Rannsakaðar voru 49 ár á vatnasviðinu Upper Little Tennessee River Basin í sunnan­verð­um Appalasíufjöllum í austanverðri Norður-Ameríku. Vísindafólkið komst að því að í fiskiám þar sem engan trjágróður er að finna á árbökkum verður árfarvegurinn þrengri og fjöldi ferskvatnslífvera einungis einn þriðji af því sem ella væri.

Rannsóknin var hluti af stærra rannsóknarverkefni, langtímarannsókn sem kallast á ensku Coweeta Long Term Ecological Research Project. Athugunin sýndi að straumvötn sem runnu um skóglendi höfðu að geyma mun flóknari búsvæðagerðir fyrir lífverur og stóðu undir fjölbreytilegra ferskvatnslífríki en þau sem runnu um gresjur eða beitilönd. Þetta er haft eftir Rhett Jackson, prófessor við Warnell School, í umfjöllun phys.org. Hann segir að vistkerfi á árbökkum í skóglendi skipti miklu máli enda falli efni af trjám og trjábútar út í árnar og myndi margvísleg búsvæði fyrir vatnalífverur eins og fisk, salamöndrur og hryggleysingja.

Ef skógur er felldur á árbökkum skín líka meiri sól á straumvatnið sem veldur því að sumarhitinn í ánum getur hækkað um tvær til fjórar gráður, segir Jackson. Silungur og salamöndrutegundir hafi aðlagast svölum og skuggsælum aðstæðum í straumvatninu og óreiðukenndu umhverfi með alls kyns viðarbútum, greinum, glufum, krókum og kimum. Ef aðstæður í straumvatninu verða einsleitari og meðalhitinn hækkar verði skilyrðin líkari því sem hentar allt öðrum tegundum straumvatnsfiska.

Í einföldustu máli eru niðurstöðurnar þær að tré bæti ár og læki. Þetta segir Jackson að eigi ekki að koma á óvart enda hafi lífríkið í Appalasíufjöllum lagað sig að aðstæðum sem skógurinn skapar. Hann segir að jafnvel ár þar sem einungis voru stök tré á árbökkum hafi reynst renna í breiðari árfarvegum en ár þar sem uxu alls engin tré á bökkunum.

Þá segir hann einnig að á mörgum af þeim svæðum sem voru til rannsóknar sé að minnsta kosti öld liðin frá því að skóginum var eytt og landinu breytt í tún og beitilönd. Undanfarið hafi þeim þó fjölgað sem vilji stuðla að endurræktun skóglendisins til þess að skógurinn geti á ný leikið sitt rétta hlutverk, að tefja flæði vatnsins og skapa réttu skilyrðin fyrir lífríkið. Þetta sé í raun mjög auðvelt fyrir landeigendur að gera, þeir þurfi ekki annað en hætta að slá árbakkana og þá vaxi trén upp á ný.

Þó geti verið á brattann að sækja að telja landeigendur á að leyfa trjánum að vaxa á ný við ár og læki, segir Jackson. Rótgróin andstaða sé þeirra á meðal við skógræktarverkefni og margir þeirra trúi því að þeir geri straumvötnunum bæði gott að fjarlægja úr þeim trjávið sem í þau fellur og fegri jafnframt ásýnd þeirra. Samt sem áður séu þeir einnig til meðal landeigenda sem tali fyrir auknum trjágróðri með fram ám og lækjum. Til dæmis hafi sjóður sem kallast Mainspring Conservation Trust staðið fyrir gróðursetningu á árbökkum og vinni að því að hvetja til slíks hins sama.

Þess má geta að lokum að niðurstöður Skógvistar, umfangsmikils rannsóknarverkefnis sem fram fór hérlendis á árunum 2001, 2002 og 2015, benda í sömu átt. Til dæmis hefur lífríki straumvatna sem renna um lerkiskóg aðgang að mun meira magni lífrænna efnasambanda en lífríki straumvatna sem renna um skóglaust land. Þar með ættu fiskar að eiga meiri möguleika í ám sem renna um skóglendi en ám á skóglausum svæðum. Skógvist var samvinnuverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktarinnar.

Texti: Pétur Halldórsson