Fyrsta tréð sem vitað er að hafi náð þrjátíu metra hæð á Íslandi frá því fyrir ísöld er sitkagrenitré sem gróðursett var 1949 á Kirkjubæjarklaustri. Tréð náði þrjátíu metra markinu sumarið 2022 og mældist í sumarlok 30,15 metra hátt. Það fékk heiðursnafnbótina Tré ársins hjá Skógræktarfélagi Íslands og sló Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra máli á tréð við hátíðlega athöfn á Klaustri 12. september 2022. Sitkagreni er ein mikilvægasta og verðmætasta tegundin í skógrækt á Íslandi, sérstaklega til timburframleiðslu og bindingar á kolefni.
Aðstaða til skíðagöngu í Haukadalsskógi hefur verið bætt með nýjum leiðum og endurbótum á þeim sem fyrir voru. Leiðirnar eru hugsaðar sem göngu- og hlaupaleiðir þegar ekki er snjór. Sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu taka þátt í skipulagningu leiða og kynningu og er það liður í átaki um heilsueflandi samfélag.
Morgunblaðið greinir frá því að hugmyndir séu uppi um það í Dalabyggð að koma þar upp aðstöðu og afla þekkingar til að koma upp fjölgunarstöð fyrir kynbætta lerkiblendinginn 'Hrym'. Verkefnið er á frumstigi en ætti að skýrast næsta hálfa árið hvort af því getur orðið.
Til aspa teljast hartnær þrjátíu tegundir sumargrænna lauftrjáa af víðiætt sem vaxa á norðurhveli jarðar. Tvær þeirra þekkjum við Íslendingar best, blæöspina sem vex villt á nokkrum stöðum hérlendis og alaskaösp sem er algengt tré í þéttbýli en líka ein mikilvægasta nytjatrjátegund okkar Íslendinga. Þegar ösp er nefnd í daglegu tali er í seinni tíð yfirleitt átt við alaskaösp.
Ákveðið hefur verið að hin árlega Fagráðstefna skógræktar fari fram á Ísafirði 29.-30. mars 2023. Þema ráðstefnunnar verður tilkynnt síðar ásamt dagskrá og hagnýtum upplýsingum.