Fagráðstefna skógræktar 2023 verður haldin á Ísafirði 29.-30. mars 2023. Þema ráðstefnunnar verður „Skógrækt á tímum hamfarahlýnunar“.
Vinnuhópur á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar hefur gefið út leiðbeiningar um hvernig best skuli staðið að ábyrgum kolefniseiningum á valkvæða markaðnum, framleiðslu þeirra, umsýslu og notkun á móti losun í grænu bókhaldi. Nokkrir fulltrúar frá Íslandi áttu sæti í hópnum, meðal annars einn frá Skógræktinni.
Páll Sigurðsson skógfræðingur hefur verið ráðinn í starf skipulagsfulltrúa Skógræktarinnar. Starfið flyst nú af rekstrarsviði stofnunarinnar yfir á skógarþjónustusvið. Meðal meginverkefna nýs skipulagsfulltrúa verður að vinna að landshlutaáætlunum og gæðaviðmiðum í skógrækt.
Ríkið hefur verið sýknað af kröfu Símans sem gerði tilkall til veiðiréttar vegna spildu úr landi Skriðufells í Þjórsárdal sem fyrirtækið á. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var sú að vegna skógræktar á jörðinni hefði hún verið í fullum búrekstri þegar spilda Símans var tekin út úr henni og því hefði verið í gildi bannregla um aðskilnað veiðiréttar frá bújörðum. 
Rannsóknasvið Skógræktarinnar hefur frá árinu 2005 staðið að landsúttekt á ræktuðum skógum og náttúrulegum birkiskógum og birkikjarri á Íslandi.