Ertuyglulirfur á greni. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir
Ertuyglulirfur á greni. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir

Líklegt þykir að lengd og meðalhiti sumars hafi meiri áhrif á stofnstærð ertuyglu hérlendis en vetrarhiti. Í rannsókn sem sagt er frá í nýrri grein í alþjóðlegu vísindariti voru áhrif vetrarkulda á ertuyglupúpur skoðuð.

Þrír starfsmenn Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, Brynja Hrafnkelsdóttir, Edda S. Oddsdóttir og Halldór Sverrisson, birtu á dögunum grein í vísindaritinu Agricultural and Forest Entomology þar sem áhrif vetrarkulda á ertuyglupúpur voru skoðuð. Auk þess eru Bjarni D. Sigurðsson, prófessor við Land­bún­að­ar­háskóla Íslands, og Guðmundur Halldórsson, rannsóknarstjóri Landgræðslunnar, með­höfundar að grein­inni.

Ertuygla (Ceramica pisi ) er innlend fiðrildategund sem hefur dreift sér og fjölgað verulega á Íslandi frá 1990. Hún hefur valdið umtalsverðu tjóni á ungum trjáplöntum á útbreiðslusvæði hennar, einkum á sunnanverðu landinu.

Á sama tíma og ertuygla hefur fjölgað sér hefur meðalhiti verið að hækka á Íslandi. Í greininni er kannað hvort mildari vetur geti hafa haft áhrif á stofnstærð og dreifingu ertuyglu. Það var gert með því að geyma ertuyglupúpur við mismunandi hitastig, allt frá 4°C niður í -18°C, og bera saman lifun eftir kælingu/fryst­ingu.

Enginn munur fannst á lifun á milli meðferða. Því var tilgátunni hafnað um að hærri vetrarhiti hafi haft áhrif á ertuygluna. Í greininni kom aftur á móti fram að þyngd púpna skipti miklu máli fyrir lifun. Því telja greinarhöfundar líklegt að aðrir þættir, eins og lengd og meðalhiti sumars, hafi meiri áhrif á stofnstærð ertuyglu en vetrarhiti.

Texti: Brynja Hrafnkelsdóttir