Skilti í Hallormsstaðaskógi hafa nú öll verið uppfærð í samræmi við Skiltahandbók Skógræktarinnar. L…
Skilti í Hallormsstaðaskógi hafa nú öll verið uppfærð í samræmi við Skiltahandbók Skógræktarinnar. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Danskir verknemar í starfsnámi hjá skógarverðinum á Hallormsstað hafa unnið að því að undanförnu að leggja göngustíg um lerkiskóginn ofan við Skriðuklaustur í Fljótsdal. Sæmileg aðsókn hefur verið að tjaldsvæðunum í Hallormsstaðaskógi og hefur vaxið eftir að hlýna tók í veðri í júlí.

Þetta er meðal þess sem Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, svaraði til þegar skogur.is spurði hann frétta af verkefnum sumarsins í umdæmi hans og viðburðum það sem af er sumri.

Helsu verkefni sumarsins eru hefðbundin að mörgu leyti, segir Þór. Töluvert þurfi að vinna að girðingarviðhaldi, bæði á Hallormsstað og í Jórvík í Breiðdal. Girðingar séu víða orðnar gamlar og úr sér gengnar. Lítils háttar hefur verið gróðursett í litla reiti í Hallormsstaðaskógi sem hafa verði sem hafa verði að mestu leyti gjörfelldir síðustu tvö ár. Þar óx áður lerki gróðursett á árunum 1952-1953 sem nú hefur gefið af sér verðmæti.

Unnið var að grisjun eystra í vor en því var hætt eftir miðjan maí þegar önnur verkefni fóru að kalla að. Síðustu daga hefur þó verið unnið að því að grisja og hreinsa til í Trjásafninu eins og stöðugt þarf að gera. Nú hafa skilti öll verið uppfærð í Hallormsstaðaskógi í samræmi við Skiltahandbók Skógræktarinnar og með merki stofnunarinnar þar sem við á.

Stígagerð á Skriðuklaustri

Þá segir Þór að danskir skógfræðinemar í starfsnámi hafi unnið að því að undanförnu að leggja göngustíg í lerkiskóginum ofan við Skriðuklaustur. Skógarsvæðið þar er í umsjón Skógræktarinnar en stígaverkefnið er unnið í samvinnu við Gunnarsstofnun og Varnajökulsþjóðgarð. Almenn umhirða á útivistarsvæðum á Hallormsstað er líka alltaf töluverður hluti af sumarstarfinu. Lögð er áhersla að svæðin sem ferðamaðurinn heimsækir séu snyrtileg og til fyrirmyndar.

Í vor var dreifingarstöð fyrir trjáplöntur til skógarbænda á Austurlandi sett upp á Hallormsstað. Nú hafa nær allar plöntur verið afhentar sem bárust í stöðina í vor, alls um 40.000 talsins. Ljósmynd: Þór ÞorfinnssonStarfstöð Skógræktarinnar á Hallormsstað tók að sér nýtt verkefni í vor, að taka á móti og skógarpöntum og afhenda til skógarbænda í fjórðungnum. Þór segir að alls hafi verið afhentar um 400.000 plöntur og séu þær nú að mestu farnar úr stöðinni. Verkefnið hafi gengið vel. Jafnhliða sumarstörfunum er sagaður niður og afhentur eldiviður, verkefni sem er í gangi allt árið.

Batnandi tíð, fleiri gestir

Sæmileg aðsókn hefur verið á tjaldsvæðunum það sem af er sumars að sögn Þórs. Fremur sólarlítið var í júní og fyrstu dagana í júlí. Margir hafi legið á bæn síðustu vikur um sólríkara veður og það virðist nú vera að bera árangur. Umferð ferðafólks hafi þegar tekið að aukast með sólríkara og hlýrra tíðarfari síðustu daga.

Skógardagurinn mikli var haldinn að venju um Jónsmessu og bar viðburðinn upp á 22. júní að þessu sinni eins og við höfum sagt frá þegar hér á skogur.is.

Rétt er að benda á upplýsingar um þjóðskóga landsins á vef Skógræktarinnar, skogur.is/thjodskogar. Þar er Íslandskort sem sýnir alla helstu þjóðskógana þar sem áhugavert er fyrir fólk að fara og sjá og upplifa. Ítarlegar upplýsingar er þar að finna um Hallormsstaðaskóg og kort af skóginum með lýsingu á mörgum spennandi gönguleiðum. Einnig er til á vefnum lénið hallormsstadur.is en það vísar áfram á vefinn hengifoss.is sem hefur að geyma upplýsingar á íslensku og ensku um það sem Fljótsdalur hefur að bjóða, meðal annars Hallormsstaðaskóg.

Texti: Pétur Halldórsson