Þessi eik stendur keik þar sem fjölskyldan hófst handa í eyðimörkinni fyrir sextán árum. Ljósmynd: B…
Þessi eik stendur keik þar sem fjölskyldan hófst handa í eyðimörkinni fyrir sextán árum. Ljósmynd: Benedikt Benediktsson

Þar sem var eyðimörk fyrir sextán árum vex nú eik og alls yfir fimmtíu aðrar tegundir og afbrigði trjáa, auk ýmissa runna og fjölæringa. Árið 2013 heyrðist fyrst í skógarþresti á svæðinu. Þar með urðu tré að skógi að mati fjölskyldunnar sem breytt hefur eyðimörk í gróskumikið skóglendi á sextán árum.

Í ársbyrjun 2015, á ári jarðvegs hjá Sameinuðu þjóðunum, birtist grein á vef Skógræktarinnar undir heitinu „Úr eyðimörk í skóg á 8 árum“. Greinin fjallaði um Hekluskógaverkefnið og þann undraverða árangur sem náðst hefur í uppgræðslu og gróðursetningu á rýru og skjóllausu berangri. Tilgangur verkefnisins er að rækta upp birkiskóga í nágrenni við Heklu til að draga úr vikurfoki og koma í veg fyrir jarðvegseyðingu í kjölfar gjóskugosa.

Auður Benediktsdóttir gróðursetur birki í sandinn árið 2006.Meðal þeirra sem tekið hafa þátt í verkefninu, allt frá árinu 2006, eru Benedikt Benediktsson og fjölskylda, en fjölskyldan á landspildu syðst í landi Svínhaga á Rangárvöllum. Átta ár eru liðin frá því greinin var skrifuð og áhugavert að sjá hvað hefur gerst frá þeim tíma.

Svanhvít Vatnsdal Jóhannsdóttir fær sér kaffi í birkilundi átta árum eftir gróðursetninguna. Myndirnar þrjár hér til hægri eru allar teknar á sama stað. Á þeirri fyrstu sést Auður, dóttir Benedikts, setja niður örsmáar birkiplöntur í svartan eyðisand árið 2006 og raða í kringum þær steinum til að veita þeim skjól og koma í veg fyrir að stigið yrði á plönturnar. Á næstu mynd, sem tekin er árið 2014, er birkið sem Auður gróðursetti farið að veita dálítið skjól og Svanhvít Vatnsdal Jóhannsdóttir, eiginkona Benedikts, fær sér kaffi í birkilundinum. Síðasta myndin er svo tekin nú í lok sumars en þar situr Svanhvít á bekk í sama birkilundi.

Á þeim sextán árum sem liðin frá því ræktunarstarfið hófst hefur fjölskyldan gróðursett ríflega 20 þúsund trjáplöntur í landi sínu. Mest hefur verið gróðursett af birki frá Hekluskógum, en fyrstu árin urðu talsverð afföll af plöntum m.a. vegna sandfoks. Eftir að skjól fór að myndast hefur fjöldi trjátegunda bæst í flóruna, en tegundir og afbrigði trjáa eru komin yfir 50 auk margra tegunda runna og fjölæringa.

Og sextán árum frá gróðursetningunni lítur lundurinn svona út og Svanhvít sest á bekk.Fjöldi reynitrjáa af ýmsum tegundum eru á svæðinu sem gefa skóginum fallega haustliti. Önnur tegund sem gefist hefur vel er stafafura. Á einni myndinni hér að neðan stendur Svanhvít við lítinn stafafurulund, en fururnar í lundinum voru gróðursettar árið 2007. Í sumar sáust sjálfsáðar furur í fyrsta sinn í þessum lundi.

Selja hefur einnig vaxið vel. Seljan stæðilega sem sést á einni myndinni að neðan var gróðursett árið 2007 þá, 1,20 m á hæð, en er nú komin yfir 6 metra.

Gráelri er í miklu uppáhaldi hjá Benedikt og Svanhvíti enda fallegt tré sem getur myndað stóra krónu. Árið 2007 voru nokkur slíkt tré gróðursett í þéttum hnapp. Trén uxu betur en þorað var að vona og mynda nú mjög þéttan gráelrilund þar sem hæstu trén eru komin yfir 6 metra. Að fenginni reynslu gróðursetja hjónin nú gráelritré stakstæð svo þau fái sem best notið sín.

Síðustu 4-5 árin hefur áhersla hjónanna færst frá magngróðursetningu á birki yfir í aðrar tegundir, þ. á m. eðaltré svo sem eikur, en nokkrar slíkar eru á svæðinu.

Eins og gefur að skilja hefur heildaryfirbragð svæðisins breyst umtalsvert frá 2006 eins og sést á síðustu þremur myndunum hér að neðan. Sú yngsta er tekin í lok sumars 2022 og það eina sem er óbreytt er Búrfellið í fjarska.

Að lokum mætti velta upp spurningunni: Hvenær verða tré að skógi? Benedikt og Svanhvít velkjast ekki í vafa með svarið. „Það var sumarið 2013, þá heyrðum við í fyrsta sinn í skógarþresti á svæðinu.“

Heimild: Benedikt Benediktsson
Ljósmyndir: Benedikt Benediktsson og Svanhvít Vatnsdal Jóhannsdóttir
Inngangur og ritstjórn: Pétur Halldórsson