Auður Benediktsdóttir gróðursetur birki í sandinn árið 2006
Auður Benediktsdóttir gróðursetur birki í sandinn árið 2006

Gott dæmi um skjótan árangur skóggræðslu

Auður Benediktsdóttir 2011 á sama stað og hún gróðursetti birki árið 2006. Ljósmynd: Benedikt BenediktssonFjöldi landeigenda tekur þátt í Hekluskógaverkefninu og hafa margir þeirra náð undraverðum árangri í ræktun birkiskóga á örfáum árum, gjarnan á afar rýru landi. Meðal þeirra eru Benedikt Benediktsson og fjölskylda sem eiga landspildu syðst í landi Svínhaga á Rangárvöllum, rétt ofan Bolholts. Þau hafa breytt eyðimörk í skóg á átta árum. Á myndinni hér að ofan sést Auður Benediktsdóttir að gróðursetja birki í svartan sandinn árið 2006 en á þeirri neðri er hún á sama stað sumarið 2011.

Benedikt hófst handa við uppgræðslu og gróðursetningu á afar rýru og skjóllausu berangri árið 2006. Frá upphafi hefur verið hlúð að plöntunum með áburðargjöf og hafa þær að mestu sloppið við áföll á fyrstu árunum. Árangurinn er góður. Hæð hæstu birkiplantnanna er komin á þriðja metra og eru þær í góðum vexti. Hafa plönturnar borið fræ og er þegar farið að sjást sjálfsáið birki í næsta nágrenni við elstu birkiplönturnar.

Á vef Hekluskóga er Benedikt og fjölskyldu hans þakkað kærlega fyrir samstarfið á liðnum árum og aðrir þátttakendur í Hekluskógum hvattir til að senda verkefnisstjóra myndir og sögur af árangri við ræktun birkiskóga. Meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð hvernig breyta má eyðisöndum í vöxtuglega skóga.

Því má bæta við þetta að með þessum aðferðum má ná góðum árangri á snauðum söndum með fleiri trjátegundum, svo sem stafafuru, ösp og jafnvel sitkagreni. Þá má uppskera nytjavið eftir nokkra áratugi af landi sem áður gaf engan arð. Um leið stöðvast losun koltvísýrings úr jarðvegi, binding koltvísýrings hefst, jarðvegseyðing stöðvast, skjól myndast, vatnsbúskapur batnar og fjölbreytilegt vistkerfi örvera, smádýra, jurta og dýra verður til. Árið 2015 er ár jarðvegs hjá Sameinuðu þjóðunum og framlag Benedikts og fjölskyldu er framlag til heimsbyggðarinnar, ekki aðeins til Íslands og Íslendinga.

Yfirlitsmynd af svæðinu árið 2006.

Mynd tekin á sama stað 2014.

Árið 2014 var skógurinn farinn að gefa skjól og hentar vel til útivistar.

Hér er Benedikt með mælistikuna í einum af elstu birkilundunum árið 2014.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Vefur Hekluskóga
Myndir: Benedikt Benediktsson