Sáralítill gróður sást frá þessu sjónarhorni í Langadal á Þórsmörk fyrir 60 árum. Nú vex birki og an…
Sáralítill gróður sást frá þessu sjónarhorni í Langadal á Þórsmörk fyrir 60 árum. Nú vex birki og annar gróður um hæðir, brekkur og lautir hvert sem litið er, langt upp í fjallahlíðar. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Skógræktin tekur þátt í upphafsviðburði áratugar Sameinuðu þjóðanna um endurhæfingu vistkerfa fimmtudaginn 3. júní með því að Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóganna, segir frá vernd og útbreiðslu birkis á Þórsmerkursvæðinu. Þá verða sérfræðingar úti við að dagskrá lokinni og fræða gesti um ýmislegt sem snertir vistkerfi, eflingu þeirra og ógnir sem að þeim geta steðjað. Viðburðurinn verður í Norræna húsinu í Reykjavík og hefst kl. 16.30.

Vernd og efling Þórsmerkursvæðisins er eitt merkilegasta náttúruverndar­verkefni Íslendinga á 20. öld. Þórsmörk og nærliggjandi afréttir voru skógi vaxið svæði við landnám. Þar viðhéldust skógar langt fram eftir öldum enda svæðið nokkuð einangrað af jöklum og jökulám. Á 19. öld var ástand birkiskóga á Þórsmerkursvæðinu þó orðið afar bágborið og í lok aldarinnar skipaði sýslu­maður Rangárvallasýslu skógarverði úr hópi bænda til að stjórna skógarhöggi á svæðinu. Eftir Kötlugosið 1918 var svæðið þakið ösku og ekki hægt að beita fé þar fyrstu mánuðina. Líklega hefur það ástand stuðlað að því að hugmyndir um friðun skóganna fengu meðbyr. Árni Einarsson í Múlakoti vann málinu framgang meðal bænda í Fljótshlíð sem áttu beitarrétt á Þórsmörk ásamt Oddakirkju. Agner F. Kofoed-Hansen skógræktarstjóri og Einar Sæmundsen skógarvörður voru einnig ötulir að koma málinu áfram hjá ráðamönnum og heimamönnum. Í janúar 1920 skrifuðu allir eigendur og ábúendur jarða í Fljótshlíð með beitarrétt á hálfri Þórs­mörk undir skjal þar sem þeir fólu Skógræktinni að friða skóga Merkurinnar. Skjalið var fullgilt af Erlendi Þórðarsyni, presti í Odda, 9. maí 1920, en Oddakirkja átti beitarrétt á hinum helmingi Þórsmerkur. Er þetta samkomulag líklega eina dæmi þess hér á landi að beitarréttarhafar hafi afsalað sér beitarrétti á afrétt til að vernda skóga.

Öll þessi vinna sem síðan hefur farið fram undir stjórn Skógræktarinnarr skilað því að nú er stór hluti Þórsmerkursvæðisins þakinn birkiskógum. Lífríkið allt hefur dafnað við friðunina og hefur allur gróður aukist, sem og dýralíf. Landið er nú mun þolnara gagnvart áföllum en það var árið 1918 þegar Katla dreifði ösku yfir svæðið. Eldskírnina fengu nýir skógar á Þórsmerkursvæðinu árið 2010 þegar aska dreifðist yfir stóran hluta þeirra. Gróður á skóglausum svæðum í nærliggjandi sveitum og afréttum átti í vök að verjast vegna öskufalls og öskufoks. Á hinn bóginn sá á ekki á skógum á Þórsmerkursvæðinu. Þvert á móti nutu þeir góðs af öskunni sem veitti þeim næringu. Í dag er viðhald gönguleiða um svæðið aðalverkefni Skógræktarinnar á Mörkinni og er svæðið opið almenningi allt árið um kring.

Þórsmörk er því fyrirmyndardæmi um hvernig hægt er að efla landgæði á ný og ná aftur fram öflugu vistkerfi á landi sem hnignað hefur vegna ofnýtingar. Á myndunum sem hér fylgja má bera saman ástand gróðurs nú og fyrir 50-70 árum og sjá þann mikla árangur sem náðst hefur.

Dagskrá 3. júní í og við Norræna húsið í Reykjavík

  • 16.30-16.35 Opnunarerindi umhverfis- og auðlindaráðherra
  • 16.35-16.40 Ása L. Aradóttir og Kristín Svavarsdóttir. Hvað er vistheimt?
  • 16.40-16.45 Hreinn Óskarsson. Þórsmörk sem dæmi um vel heppnaða vistheimt
  • 16.45-16.50 Sverrir Norland. Vistheimt á mannamáli
  • 16.50-17.00 Kynning á skoðunarferðum um vistheimtarsvæði
  • 17.00 Náttúrufræðingar sýna gestum Vatnsmýrina

Fundarstjóri: Rannveig Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Landvernd.

Nánar má fræðast um dagskrá viðburðarins í Norræna húsinu á fimmtudag á Facebook-síðu hans:

Frétt: Pétur Halldórsson