Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti 1. mars 2019 að næsti áratugur skyldi helgaður endurhæfingu vistkerfa á jörðinni. Markmiðið er að koma í veg fyrir og stöðva hnignun vistkerfa og stuðla að uppbyggingu þeirra á ný. Mikilvægur hluti af því starfi er að fræða jarðarbúa um heilbrigð vistkerfi og endurhæfingu vistkerfa og sjá til þess að ákvarðanir hjá bæði hinu opinbera og hjá sjálfstæðum fyrirtækjum og félögum sé tekið tillit til heilbrigði vistkerfa þegar stefna er mótuð og ákvarðanir teknar.

Hér er átt við bæði vistkerfi á landi og í sjó. Ekki þarf að byrja frá grunni því nú þegar eru til alþjóðlegir samningar og markmið sem byggja má á. Þar má auðvitað nefna Parísarsamkomulagið en líka alþjóðleg markmið um landhnignunarhlutleysi og markmið um líffjölbreytni. Hvað varðar skóga er líka BONN-áskorunin um að heimsbyggðin endurhæfi fyrir árslok 2020 150 milljónir hektara lands þar sem skógar hafa eyðst og landgæðum hnignað. Fyrir 2030 er markmiðið að þetta endurreisnarstarf nái til 350 milljóna hektara lands. Þá er vert að nefna einnig verkefni eins og Initiative 20X20 þar sem unnið er að enduruppbyggingu vistkerfa í löndum rómönsku Ameríku og Karíbahafseyja og sömuleiðis ekki ósvipað verkefni í Afríku sem kallast Africa Restoration 100. Með því síðarnefnda er stefnt að því að breiða skóglendi út á ný á 100 milljónum hektara lands í Afríku fyrir árið 2030.

Mette Løyche Wilkie sem stýrir vistkerfisdeild UNEP, umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna, tíundaði þessi mál á vefmálþingi sem haldið var nýverið í tilefni af áratug endurhæfingar vistkerfa. Þar kom fram að UNEP hefði verið falið ásamt FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, að hafa forystu um þetta starf næsta áratuginn í samhengi við Ríó-sáttmálana um líffjölbreytni og baráttu gegn eyðimerkurmyndun og loftslagsbreytingum. Sömuleiðis verður sjálfboðastarf virkjað.

Hnignun skóga, votlendis og sjávarvistkerfa

Tilefni þess að Sameinuðu þjóðirnar helga heilan áratug baráttunni fyrir eflingu vistkerfa er augljós. Mette bendir á að frá árinu 1990 hafi glatast um 420 milljónir hektara skóglendis á jörðinni og síðustu öldina hafi um 70 af hundraði alls votlendis verið þurrkuð upp. Og ef litið sé til sjávarins hafi kóralrifjum víða hnignað stórlega og sömuleiðis háplöntu- og þörungagróðri á hafsbotni sem fóstrar mikilvægt og fjölbreytt lífríki víða. Þessi þróun hafi bein áhrif á okkur mannfólkið. Eins hafi hnignun vistkerfa bein áhrif á velferð um 3,2 milljarða jarðarbúa. Minnkaða líffjölbreytni og vistkerfisþjónustu megi meta til jafns við tíu prósent af þjóðarframleiðslu heimsbyggðarinnar.

Mette minnir einnig á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sama hvert markmiðanna sautján sé nefnt, alltaf megi tengja það við líffjölbreytni og vistkerfisþjónustu með einhverjum hætti. Hún nefnir markmiðin sem þjóðir heims hafa sett sér í loftslagsmálum fram til 2030. Um þrjátíu prósent af þeim markmiðum sé hægt að ná með náttúrulausnum eins og skógrækt, endurheimt votlendis og landbótum. Slíkar aðgerðir auki líka viðnámsþrótt náttúrunnar og samfélaga fólks auk þess sem heilbrigð vistkerfi á landi og sjó skapi fólki vinnu og lífsviðurværi, treysti aðgang þess að hreinu vatni og efli lýðheilsu.

Frjór jarðvegur breytinga

Efnahagslegi þátturinn er líka mikilvægur í þessu samhengi. Arðsemi aðgerða sé tíu til fimmtánföld og kostnaðurinn við nauðsynlegar aðgerðir einungis þriðjungurinn af þeim kostnaði sem hlytist ef ekkert væri gert. Ef mannkyninu tekst að endurhæfa 350 milljónir hektara hnignaðs lands fyrir 2030 eins og felst í markmiðum Bonn-áskorunarinnar, er talið að nettóávinningur geti numið 9 billjónum Bandaríkjadollara sem nemur meira en þúsund milljónum milljóna íslenskra króna sem eru ógurlegar tölur.

Mette Løyche Wilkie telur að nú sé frjór jarðvegur fyrir breytingar í heiminum. Við séum ekki á byrjunarreit. Nú þegar séu mörg verkefni í gangi, vilji og áhugi sé meðal fólks hvarvetna í heiminum til aðgerða enda sé almenningur orðinn mun betur upplýstur um vandamálin. Vitneskja og upplýsingar dreifist nú ekki eingöngu lóðrétt að ofan heldur lárétt þvers og kruss um samfélög fólks. Hins vegar geti verið mjög misjafnt hversu mikil tök eða tækifæri fólk hafi til aðgerða og víða geti skort hvatningu, úthald og stuðning. En Mette segir mikil tækifæri liggja í þessari láréttu upplýsingamiðlun og bendir til dæmis á öfluga hreyfingu í átt til jafnari stöðu fólks í heiminum svo sem sjá má með myllumerkinu #NewPower.

Mikil tækifæri á Íslandi

Ísland er gott dæmi um land þar sem náttúruauðlindir á landi hafa tapast í stórum stíl og víða fer landsvæðum enn hnignandi ellegar að hnignun þeirra sé viðhaldið með vanrækslu eða ofnýtingu. Tugir þúsunda ferkílómetra skóglendis hafa horfið af Íslandi og skóglendi er nú ekki á nema um tvö þúsund ferkílómetrum lands, þar af ræktaðir skógar á innan við 500 ferkílómetrum.

Tækifæri Íslendinga til að ná verulegum árangri á áratug endurhæfingar vistkerfa eru geysimikil. Við getum stuðlað að útbreiðslu villtra birkiskóga með friðun lands og ræktun birkis sem leiðir til sjálfsáningar þess. Við getum aukið gróðursetningu skóga með öflugum skógum sem binda mikið kolefni og við getum líka bleytt land sem hefur verið þurrkað og grætt upp örfoka landsvæði. Allt þetta leiðir til minni losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis.

Blásum til sóknar í skógrækt á Íslandi á áratug endurhæfingar vistkerfa hjá Sameinuðu þjóðunum!

Texti: Pétur Halldórsson