Stæðileg svartelritré í skóginum á Mógilsá. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Stæðileg svartelritré í skóginum á Mógilsá. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Alnus glutinosa

Tegund þessi er sumargrænt lauftré með óvenjulega hæfni til að þrífast í blautum jarðvegi með kyrrstæðu vatni. Þetta segir Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, í ritgerð um svartelri sem kom út í 36. tölublaði Rits Mógilsár árið 2018 með titlinum Vanmetið fenjatré. Þar kemur fram að svartelri vaxi í votlendi við fljót og með fram ám og lækjum um mestalla Evrópu, frá Skandinavíu til Miðjarðarhafslanda og austur um Litlu-Asíu til Írans en líka á stöku stað í dölum Atlasfjalla í Norður-Afríku, Marokkó, Túnis og Alsír. Vert sé að huga betur að ræktun tegundarinnar hérlendis.

Svartelri er miðlungsstórt tré og ætti að geta náð a.m.k. 20 metra hæð á Íslandi. Algeng hæð á upprunasvæðum er 18-25 metrar en dæmi eru um yfir 40 metra há tré við bestu aðstæður. Tegundin er beinvaxin og myndar keilulaga krónu. Viðurinn er til margra hluta nytsamlegur. Í samanburði við aðrar elritegundir sem þekktari eru hjá okkur, svo sem gráelri, er svartelrið hraðvaxnara og verður stærra. Hins vegar vex það hægt í mólendi, eins og reyndar öll önnur lauftré. Reynslan af ræktun svartelris er lítil hér á landi. Sum kvæmi sem flutt hafa verið inn sýna léleg þrif, önnur mun betri. Því er talsverð kvæmaleit eftir áður en hægt er að dæma tegundina efnilega eða segja til um hvar ræktun hennar muni takast best.

Framleiða áburðinn sjálf

Ungt og efnilegt svartelritré á Suðurlandi. Ljósmynd: Þorbergur Hjalti JónssonElritegundir hafa svipaðan eiginleika og hvítsmári, rauðsmári, baunagras, lúpína og fleiri belgjurtir að lifa í öflugu samlífi við örverur á rótum sínum sem gefur trjánum nitur, eitt helsta fjörefni plantna. Í tilviki elritegunda er sambúðin við geislasvepp af ættkvíslinni Frankia og í ræktun er mikilvægt að tryggja að slík svepprót sé til staðar áður en gróðursett er. Svartelri gerir líka miklar kröfur um birtu. Tegundin er með öðrum orðum ljóselsk og hentar því sem frumherji í skógrækt.

Styrkleikar svartelris eru áðurnefndir niturbindandi eiginleikar og sömuleiðis hraður vöxturinn sem gerir að verkum að svartelri gæti komið til greina sem timburtré á Íslandi. Okkur vantar einmitt fleiri tegundir lauftrjáa sem orðið geta stórvaxin timburtré, en að svo stöddu er það í raun einungis alaskaösp sem fyllir þann flokk hérlendis. Heldur erfiðara er að segja um veikleika tegundarinnar á Íslandi vegna þess hve lítil reynsla er af henni í skógrækt enn sem komið er. Þó virðist henni hætt við haustkali og miklum afföllum í æsku. Slíkt mætti þó ef til vill forðast með réttum ræktunaraðferðum. Þá er þetta einnig nokkuð skammlíf tegund að jafnaði því algengt er erlendis að fúa fari að gæta í trjábolnum um sextugt. Trjástofnar svartelris verða sjaldan eldri en 120 ára en trén geta fjölgað sér bæði með teinungum og fræi, líkt og birkið á Íslandi.

Ástæða til aukinnar ræktunar

Þó nokkuð er af svartelri í íslenskum görðum en tegundin hefur ekki verið notuð í markvissri skógrækt. Í skóginum á Mógilsá undir Esjuhlíðum má sjá svart- og gráelritré sem vaxa hlið við hlið. Þar er vaxtarþróttur svartelrisins augljós umfram gráelrið. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir svartelri á Íslandi ef frekari kvæmaleit fer fram. Þorbergur Hjalti Jónsson ályktar í það minnsta í áðurnefndri ritgerð sinni um svartelri að hér fari vanmetin tegund. Hann bendir m.a. á að svartelri frá 65. gráðu norðlægrar breiddar í Finnlandi hafi reynst vel á Íslandi, til dæmis í Lystigarðinum á Akureyri þar sem það er sagt harðgert, vaxi vel og kali ekkert. Niðurstaða Þorbergs Hjalta í ritgerð sinni er því sú að full ástæða sé til að reyna ræktun svartelris meira í skógrækt á Íslandi, sérstaklega á flatlendu, framræstu landi þar sem ösp og greni hafa átt erfitt uppdráttar vegna sumarfrosta.

Rautt eða svart

Heiti svartelris hefur gjarnan komið upp í umræðu á kaffistofum skógræktarfólks og vilja sumir kalla það rauðelri enda heitir tegundin rødel á dönsku. Það stafar af því að þegar tré eru felld roðnar viðurinn fljótlega í sárinu. Vísunin til svarta litarins helgast aftur á móti af dökkum lit barkarins og „drungalegu yfirbragði trés fenja í næturhúminu“ eins og Þorbergur Hjalti orðar það. Í flestum germönskum málum er svarti liturinn í heiti þessarar trjátegundar og í íslensku virðist það ætla að verða ofan á. Það minnkar líka rugling við aðra elritegund, ryðelri, sem heitir t.d. red alder á ensku. Sú tegund er reyndar ekki síður áhugaverð hérlendis.

Hér hefur verið talað um elri en endum þetta á svolítilli málfræði. Elri er hvorugkyns og beygist elri um elri frá elri til elris. Reyndar er líka til karlkynsmyndin elrir. Önnur karlkynsmynd er aftur á móti ölur og líklega er hún upprunalegri. Strangt tiltekið er beyging hennar ölur um ölur frá ölri til ölurs en yfirleitt fer sú beyging út og suður hjá málnotendum. Auðveldara er að eiga við myndina elri í mæltu og rituðu máli þótt hin sé sannarlega öllu skemmtilegri, ekki síst ef litið er til fleirtölunnar, ölrar um ölra frá ölrum til ölra. Þannig gæti einhver sagt á förnum vegi: Hefur þú tekið eftir svartölrunum í garðinum mínum?

Texti: Pétur Halldórsson