Full ástæða er til að reyna svartelri í skógrækt, sérstaklega á flatlendu framræstu mýrlendi þar sem ösp og greni hafa átt erfitt uppdráttar vegna sumarfrosta. Þetta segir Þorbergur Hjalti Jónsson í grein sem komin er út í Riti Mógilsár með fyrirsögninni Vanmetið fenjatré.

Svartelri eða svartölur (Alnus glutinosa (L.) Gaertn.) er stundum kallað fenjatré Evrópu. Þetta er sumargrænt lauftré með óvenjulega hæfni til að þrífast í blautum jarðvegi eins og fram kemur í inngangi greinar Þorbergs Hjalta. Tegundin vex í votlendi við fljót og með fram ám og lækjum um mestalla Evrópu, allt norður til 64 gráðu norðlægrar breiddar í Noregi og upp í 1.200 metra hæð í Alpafjöllum.

Þar sem skilyrði eru hagstæð á Íslandi gæti svartölur verið áhugavert skógartré, skrifar Þorbergur Hjalti, jafnvel til timburframleiðslu, því tegundin vaxi hratt og myndi mikinn og góðan við. Dæmi séu um að trén nái allt að 35-40 metra hæð fullvaxin og allraþykkustu stofnar séu 1,5-1,8 metrar í þvermál í brjósthæð. Algengt sé að fullþroska tré verði 18-25 metra há og stofninn 35-40 sentímetra þykkur. Þar sem nú hefur hlýnað á landinu um eina gráðu eða svo að meðaltali telur Þorbergur Hjalti vert að huga betur að ræktun svartelris hér á landi.

Í grein sinni lýsir Þorbergur Hjalti vexti svartelrikvæma í Skotlandi og Finnlandi og að svo virðist sem reynslan af svartelri í skóginum á Mógilsá sé í samræmi við þá mynd sem þar er dregin upp. Þar vaxa svartelritré vel sem ættuð eru frá Skotlandi en síður þau finnsku. Það hæsta er skoskrar ættar, þráðbeint og stendur fremst á lækjarbakka. Það hefur aldrei kalið, nálgast nú 12 metra hæð og þvermálið í brjósthæð er komið yfir 20 sentímetra. Svartölur frá Kokkola í Finnlandi hefur hins vegar reynst vel á Norðurlandi.

Svartelri þarf annað hvort mikla úrkomu, yfir 1.500 millímetra ársúrkomu, eða mikinn stöðugan jarðvegsraka. Úrkoma undir Eyjafjöllum gætur nægt tegundinni, segir í greininni, en annars staðar þyrfti að treysta á nægilegan jarðvegsraka. Þorbergur Hjalti skrifar að birkt svartelri sé sennilega afbragðs hráefni í kísiliðnað og samkeppnihæft í gæðum við innflutt birki og hlyn.

Hlaða má Riti Mógilsár niður hér á vef Skógræktarinnar

Frétt: Pétur Halldórsson