Stefnumótadagurinn endar með skógarferð og veislu í Haukadalsskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Stefnumótadagurinn endar með skógarferð og veislu í Haukadalsskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Í tengslum við ráðstefnu NordGen um skógarheilsu sem haldin verður í Hveragerði í september verður efnt til stefnumótadags þar sem skógvísindafólki gefst tækifæri til að styrkja tengslanet í fræðunum, þróa hugmyndir að rannsóknarverkefnum og læra hvernig skrifa skuli umsóknir sem líklegar séu til að hljóta styrki.

Stefnumótadagurinn verður 19. september á Grandhóteli í Reykjavík. Sérstakur gestur verður Hannes Ottósson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er sérfræðingur í fyrirtækja- og hugmyndaþróun, hand­leiðslu, nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, einkum í því sem snertir rannsóknir, þróunarverkefni og viðskipta­áætl­an­ir. Hannes gefur þátttakendum innsýn í hvernig stuðla megi að skapandi rannsóknar­samstarfi og hvernig fólk geti eflt og bætt hæfileika sína í samstarfi.

NordGen greiðir ferðakostnað og uppihald allt að 10-12 doktorsnema sem vilja taka þátt í ráðstefnunni og stefnumótadeginum. Til þess að óska eftir slíkum styrk er nóg að fylla út einfalt umsóknareyðublað á vef NordGen.

Skoðunarferð

Hálfsdagsferð að Geysi og Gullfossi er hluti af dagskrá stefnumótadagsins. Stansað verður í skógum á leiðinni, meðal annars á svæðum þar sem fram fara rannsóknir og tilraunir, en deginum lýkur með skógarferð og veislu í Haukadalsskógi, einum þjóðskóganna.

 Texti: Pétur Halldórsson