Kynbætur á alaskaösp gegn asparryði verða kynntar í skoðunarferð sem er liður í dagskrá ráðstefnu No…
Kynbætur á alaskaösp gegn asparryði verða kynntar í skoðunarferð sem er liður í dagskrá ráðstefnu NordGen. Ljósmynd: Halldór Sverrisson.

Fjallað verður um aðsteðjandi hættu vegna sjúkdóma og meindýra í skógum á ráðstefnu sem skógasvið norrænu erfðavísindastofnunarinnar NordGen heldur á Hótel Örk Hveragerði 17.-18. september. Um 80 manns eru skráð á ráðstefnuna, meðal annars vísindafólk frá öllum Norðurlöndunum, Lettlandi og Bretlandi.

Yfirskrift ráðstefnunnar er á ensku Future Forest Health – Early detection and mitigation of invasive pests and diseases in Nordic forests. Það þýðir að skógarheilsa í framtíðinni verður til umfjöllunar, hvernig greina megi á fyrstu stigum nýja skaðvalda og bregðast við skæðum nýjum skaðvöldum og sjúkdómum í skógum á Norðurlöndunum.

Töluverð ógn stafar af skaðvöldum sem herjað geta á skóga í barrskógabeltinu. Ógn sem steðjar að skógunum steðjar um leið að skógrækt og skógarnytjum. Á ráðstefnunni í september verður einkum litið til þeirrar hættu sem skógrækt og skógarnytjum á Norðurlöndunum, ekki síst framleiðslu skógarplantna, getur stafað af því þegar nýjar tegundir skaðvalda berast til landanna. Helstu viðfangsefni sem tekin verða fyrir í erindum og umræðum á ráðstefnunni verða:

  • Loftslag og útbreiðsla ágengra skaðvalda í skógum með sérstakri áherslu á plöntuframleiðslu
  • Plöntuheilsa á Norðurlöndunum nú
  • Aðgerðir til að draga úr áhrifum skaðvalda í skógum; aðgerðir til að hamla gegn innflutningi nýrra tegunda skaðvalda; aðgerðir til að eyða nýjum tegundum skaðvalda; kynbætur til að auka mótstöðuafl
  • Möguleg áhrif loftslagsröskunar á skógarskaðvalda og timburframleiðslu á Norðurlöndunum

Kynnisferð er á dagskrá ráðstefnunnar seinni daginn, 18. september. Þar verða skoðuð áhrif af jarðhita sem skyndilega kom upp í skógi á Reykjum í Ölfusi eftir jarðskjálfta. Skoðaðar verða tilraunir með kynbætur á alaskaösp til að auka mótstöðuafl hennar við ryðsvepp, einnig notkun líffræðilegra varna í ylrækt að Friðheimum í Biskupstungum og loks verður Hekluskógaverkefnið kynnt.

Daginn eftir að ráðstefnunni lýkur, 19. september, verður tengsladagur SNS haldinn í Reykjavík þar sem fólk kemur saman og hittir mögulegt samstarfsfólk í vinnu að vísindalegum verkefnum, sérfræðinga sem akkur væri að komast í samband við eða myndar samstarfshópa og samstarfsnet. Meðal þátttakenda eru doktorsnemar sem hlotið hafa ferðastyrk til að  geta tekið þátt í þessum viðburðum.

 
Texti: Pétur Halldórsson