Skógræktarráðstefna Nordgen 2018 í Helsinki var skipulögð í samstarfi við landbúnaðar- og skógarmála…
Skógræktarráðstefna Nordgen 2018 í Helsinki var skipulögð í samstarfi við landbúnaðar- og skógarmálaráðuneyti Finnlands. Viðfangsefni ráðstefnunnar var nýr skógur fyrir þarfir framtíðarinnar og notkun þróaðra aðferða og tækni við endurnýjun skógarins. Þátttakendur voru yfir 80 talsins frá öllum Norðurlöndunum og Lettlandi. Ljósmynd af vef NordGen

Á skógræktarráðstefnu NordGen sem haldin var fyrir skömmu í Helsinki var fjallað um þróun tækni og aðferða við plöntuframleiðslu svo sem vefjarækt og nýja lýsingartækni. Fræðst var um sáningu furu beint í skógræktarsvæði sem gæti verið áhugaverður kostur í skógrækt á Íslandi.

Á hverju ári er haldin tveggja daga ráðstefna á vegum Nordgen í einhverju Norðurlandanna. Að þessu sinni fór ráðstefnan fram í Helsinki. Rakel Jónsdóttir og Brynjar Skúlason áttu þess kost að sitja ráðstefnuna fyrir hönd Íslands. Fyrsta erindið fjallaði um skógræktarstefnu stjórnvalda í Finnlandi og leiðir til að skapa umhverfi fyrir sjálfbæra skógrækt. Þar var m.a. fjallað um að finnska ríkið verði að leggja fram fjármagn til þess að tryggja framleiðslu fræs af réttum uppruna svo hægt sé að framkvæma stefnu stjórnvalda í mál­efnum skógariðnaðarins til framtíðar.

Hraðari kynbætur

Í kölfarið komu erindi sem fjölluðu um nýjar leiðir í að hagnýta stór gagnasöfn og hagnýtingu nýrrar tækni í fjarkönnun við skógarúttektir og umhirðuplön. Næsti þáttur ráðstefnunnar var um mikilvægi þess að nýta kynbættan efnivið í skógrækt þannig að skógarplönturnar hafi góða framleiðni en séu jafnframt vel að­lagaðar því umhverfi sem þær eru gróðursettar í. Þetta er ekki síst mikilvægt þar sem umhverfis­að­stæð­ur eru að breytast, t.d. vegna hlýnunar loftslags. Venjulega er kynbættur efniviður prófaður í s.k. afkvæma­prófunum áður en endanlegir foreldrar eru valdir til umfangsmikillar fræframleiðslu. Með nýjum úrvals­aðferðum byggðum á erfðaefninu sjálfu má stytta tímann í kynbótunum verulega að því tilskildu að erfða­efni fyrir tiltekna eiginleika sé þekkt. Þetta atriði er mikilvægt í skógrækt þar sem tré byrja seint að mynda fræ og hver kynslóð tekur jafnvel áratugi. Önnur leið til að flýta framförum í hagnýtingu kynbóta er vefja­ræktun plantna frá frækími. Með slíkri vefjaræktun má búa til marga einstaklinga frá einu fræi. Þannig er hægt að þaulnýta takmarkað magn fræs af miklum erfðagæðum.

Að nýta nýjustu tækni

Ræktunartækni skiptir miklu máli í árangri við skógrækt. Ljósgæði og orkunýting ljóss er eitt lykilatriða við að ná árangri í skógarplöntuframleiðslu. Vaxandi notkun er á notkun LED-ljósa við ræktunina en sú tækni sparar orku og býður upp á meiri stýringu á bylgjulengd ljóssins og þar með ljósgæðum til ljóstillífunar og vaxtarstýringar. Dæmi er um að tilteknar bylgjulengdir geti dregið úr myndun grámyglu sem er eitt þeirra vandamála sem geta komið upp í ræktun. Í ljósi þess að notkun hefðbundinna sveppalyfja lýtur sífellt meiri takmörkunum vegna skaðsemi þeirra á umhverfið er mikilvægt að fram komi nýjar, umhverfisvænar aðferðir til að taka við hlutverki þeirra.

Aukin ógn skaðvalda

Tæki sem slítur upp teinung með rótum, ætlað til notkunar í grenigróðursetningum í stað kjarrsögunar. Gæti kallast upprætir eða upprætari á íslensku. Ljósmynd: Rakel JónsdóttirÍ lok ráðstefnunar var einmitt fjallað um sjúk­dóma­hættu í gróðrar­stöðvum og skógar­plönt­um almennt, ekki síst í ljósi hlýnandi loftslags og vaxandi flutnings skógarplantna í alþjóða­viðskiptum. Talsverðar umræður spunnust um eftirlit og viðbrögð við sjúkdómum og fram komu almennar áhyggjur af nýjum skaðvöldum í skógarplöntum sem auðveldlega gætu síðan borist áfram í skógana. Fyrir Ísland sem eyríki er auðveldara að stemma stigu við áhættusömum innflutningi samanborið við önnur lönd i Evrópu. Frekari umræða, skynsamlegar reglur og skilvirkt eftirlit gæti gagnast Íslandi vel í baráttunni við að halda skaðvöldum á trjám frá landinu.

Á seinni degi ráðstefnunnar var skoðunarferð. Skoðað var tæki sem sleit upp teinung með rótum (uprooter) og ætlað til nota í greni­gróðursetningum í stað kjarrsögunar. Sjálfsáð kjarr sem illgresi í gróðursetningum er almennt ekki vandamál í íslenskri skógrækt og ljóst að þar spörum við verulegan kostnað.

Furu sáð beint í landið

Skoðað var svæði þar sem verið var að þróa aðferðir við beina sáningu furuskógar, bæði til að tryggja spírun og í kjölfarið spara fræ. Í Finnlandi er u.þ.b. þriðjungur allra furuskóga kominn til með beinni sáningu í stað gróðursetningar. Bein sáning t.d. stafafuru gæti hentað vel á Íslandi. Næst var skoðaður sýningarreitur með kynbættu hengibirki, þráðbeinir stofnar í góðum vexti. Í dagslok var heimsótt ein ræktunarstöð Fin Forelia þar sem ræktað var mest rauð­greni eins og almennt er í finnskum gróðrar­stöðvum en einnig talsvert af skógarfuru. Birki og lerki var einungis ræktað í litlum mæli. Stöðin fram­leiðir um 15 milljónir skógarplantna á ári hverju.  

Skógræktarráðstefna Nordgen 2018 í Helsinki var skipulögð í samstarfi við landbúnaðar- og skógarmála­ráðuneyti Finnlands.  Viðfangsefni ráðstefnunnar var nýr skógur fyrir þarfir framtíðarinnar og notkun þróaðra aðferða og tækni við endurnýjun skógarins. Þátttakendur voru yfir 80 talsins frá öllum Norður­löndunum og Lettlandi. Skógræktarráðstefna NordGen 2019 verður á höndum Íslendinga og fer fram í Hveragerði dagana 17.-18. september. Þá verður trjáheilsa meginviðfangsefnið.

Texti: Brynjar Skúlason og Pétur Halldórsson