(Mynd: Ólafur Oddsson)
(Mynd: Ólafur Oddsson)
Í upphafi árs voru 10 ár liðin frá stofnun verkefnisins Lesið í skóginn og þótti verkefnisstjóranum tilvalið að skoða hvernig til hefði tekist. Í samstarfi við Menntasvið Reykjavíkurborgar var könnun lögð fyrir þá 22 skóla sem eru með formlegan grenndarskógasamning við Lesið í skóginn og Umhverfis- og samgöngusvið borgarinnar. Markmið könnunarinnar var að komast að því hvað brynni helst á starfsfólki skólanna er varðar útinám í grenndarskógum, hvernig staðið væri að einstökum þáttum námsins, hversu mikið skógarnir væru notaðir, hverja helstu hindranirnar væru, hver staða símenntunar væri og hvers konar stuðningur frá samstarfsaðilum kæmi að bestum notum.

Könnunin leiddi ýmislegt áhugavert í ljós. Frumkvæðið að útinámi sögðu þátttakendur aðallega koma frá kennurunum sjálfum og er það í samræmi við það sem verkefnisstjóri Lesið í skóginn bjóst við. Um helmingur þátttakenda sagði námið í grenndarskóginum vera skilgreint í námskrá skólans. Misjafnt er hversu ítarlega það er skilgreint, allt frá því að vera nefnt í einni námsgrein til þess að vera rauður þráður í gegnum alla námskrána. Einnig er mjög algengt að námið sé samþætt þvert á námsgreinar.

frett_24022011_2Flestir þátttakendur í könnuninni sögðust nota grenndarskóginn reglubundið allt skólaárið. Þeir þættir sem þeir sögðu helst hafa áhrif á möguleika skólans til að nýta skóginn voru aðstaða í grenndarskóginum, áhugi og vilji kennara og sveigjanleiki skólans gagnvart útinámi. Þrátt fyrir að meira en helmingur þátttakenda hafi talið grenndarskóginn fullnægjandi, óskuðu margir eftir stuðningi við að koma upp aðstöðu og bæta búnað og áhöld vegna útinámsins. Þátttakendur könnunarinnar nefndu nokkra þætti sem myndi bæta möguleika á nýtingu grenndarskóga: fleiri námskeið, tengsl við aðra útinámskennara, útgáfa námsefnis og nýjar hugmyndir við kennsluna.


Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins og verkefnisstjóri Lesið í skóginn, segir ljóst að mörg sóknarfæri séu í útikennslu í grenndarskógum. „Útinámið virðist, samkvæmt þessari könnun, vera reglubundið, markvisst, faglega unnið og framkvæmt af mjög áhugasömum kennurum. Vagninn er gjarnan dreginn af þeim sem mestan áhuga hafa,” segir Ólafur. „Miðað við þau jákvæðu viðbrögð sem koma fram í könnuninni er líka nauðsynlegt að kynna möguleika útikennslu fyrir fleiri skólum og hvernig hún getur stutt við og styrkt skólastarf.”Texti og myndir: Ólafur Oddsson og Brynjar Ólafsson