Lirfa hins nýfundna óvinar sést hér éta lirfu birkiþélu. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir
Lirfa hins nýfundna óvinar sést hér éta lirfu birkiþélu. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir

Svo er að sjá sem að minnsta kosti einn af þeim nýju skaðvöldum sem farnir eru að herja á birki hérlendis hafi eignast náttúrlegan óvin sem gæti slegið á tjónið sem hann veldur. Sníkjudýr hefur fundist á Íslandi sem virðist lifa sníkjulífi á lirfum birkiþélu. Hugsanlegt er að sama sníkjudýrið lifi einnig á öðrum tegundum sem herja á birkið. Hann gæti þar með stuðlað að jafnvægi og dregið úr tjóni á birkinu.

Lirfa birkiþélu að éta innan úr birkilaufi. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirFram til ársins 2005 þekktust engar meindýrategundir hérlendis sem á lirfustigi nærðust innan í laufblöðum birkis. Síðan hafa þrjár slíkar numið hér land. Sú fyrsta var birkikemba (Heringocrania unimaculella) sem fannst fyrst hérlendis árið 2005. Hún er fiðrildategund og afkvæmi hennar eru á lirfustigi í sumarbyrjun og fram á mitt sumar. Þá étur hún innan úr birkilaufblöðum þannig að blöðin verða smám saman brún á lit. Árið 2016 fannst síðan önnur tegund, birkiþéla (Scolioneura betuleti), sem er blaðvespa. Lirfur hennar taka við af lirfum birkikembu og nærast á blaðholdinu fram á haust. Sú þriðja kallast á latínu Fenusella nana og er sömuleiðis blaðvespa eins og birkiþélan. Sú fannst fyrst árið 2022 og en lirfur hennar koma einnig fram seinni hluta sumars.

Eins og nærri má geta geta birkitré orðið illa útleikin ef fleiri en ein þessara þriggja tegunda herja á þau því þá standa árásir þeirra yfir mestallt sumarið. Vangaveltur hafa verið um hvers vegna þessar tegundir skaði birkið hér meira en í nágrannalöndum okkar. Talið er líklegt að þar spili skortur á náttúrulegi, óvinum þessara meindýra stórt hlutverk. Náttúrlegir óvinir skaðvalda eru aðrar lífverur sem lifa á meindýrinu svo sem sjúkdómsvaldandi örverur, spendýr, fuglar eða önnur skordýr. Náttúrlegir óvinir geta komið jafnvægi á kerfið þannig að stofn meindýrsins haldist nægilega mikið niðri til að plantan verði ekki fyrir miklum skaða.

Í síðustu viku fann Brynja Hrafnkelsdóttir, skordýrafræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, litlar lirfur og púpur innan í skemmdum laufum sem birkiþéla hafði étið úr. Ein lirfan var greinilega að gæða sér á birkiþélulirfu svo að grunur kviknaði um að hugsanlega væri þarna komin tegund sem lifði sníkjulífi á birkiþélu. Myndir af lirfunni og púpunum voru sendar til sérfræðings á þessu sviði í Sviss sem staðfesti að þarna væri um sníkjudýr að ræða. Ekki er hægt að tegundagreina lirfurnar nema með raðgreiningu en sérfræðingurinn taldi líklegt að púpan tilheyrði ættinni Eulophidae en mörg skordýr þeirrar ættar lifa á öðrum skordýrum sem éta innan úr laufblöðum plantna. Það er því orðið ljóst að náttúrlegur óvinur birkiþélu hefur numið hér land og hugsanlegt að hann lifi einnig á öðrum tegundum sem éta innan úr laufum birkis. Í myndbandinu hér að neðan sem Brynja tók af þessum nýja landnema má sjá hvernig lirfa hans gæðir sér á lirfu birkiþélu. Að neðan eru einnig fleiri ljósmyndir.

Rætt var við Brynju Hrafnkelsdóttur í Samfélaginu á Rás 1 föstudaginn 8. september. Þar mátti skilja að vegna þessa nýja náttúrlega óvinar birkiþélunnar væri framtíð birkisins töluvert bjartari en áður.

Texti: Brynja Hrafnkelsdóttir og Pétur Halldórsson