Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra með kort sem sýnir útbreiðslu íslenskra birkiskóga eftir birki…
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra með kort sem sýnir útbreiðslu íslenskra birkiskóga eftir birkiskógaúttektina sem lauk 2014.

Umhverfisráðherra gleðst yfir aukinni útbreiðslu birkiskóganna

Endurkortlagningu náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs á Íslandi er lokið og nú liggja meginniðurstöður hennar fyrir. Þessar niðurstöður voru kynntar Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra í dag á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Í fyrsta sinn frá landnámi er nú staðfest að birkiskógar landsins séu að stækka. Þeir þekja nú hálft annað prósent landsins. Mest hafa birkiskógarnir breiðst út á Vestfjörðum og Suðurlandi.

Niðurstöður­nar sem kynntar voru í dag marka í raun tímamót í sögu íslenskra skóga frá landnámi. Segja má að hnignun þeirra sem hófst við upphaf byggðar í landinu sé nú lokið og birkiskógarnir farnir að breiðast út á ný. Á kynningarfundinum á Mógilsá í dag bauð Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður ráðherra og aðra gesti velkomna en því næst talaði Arnór Snorrason skógfræðingur sem stýrt hefur verki við kortlagninguna. Hann rakti stuttlega sögu birkikortlagningar á Íslandi og sagði frá þessari nýju úttekt sem unnið hefur verið að undanfarin 5 ár. Björn Traustason landfræðingur tíundaði svo helstu niðurstöðurnar.

Útbreiðsla birkiskóganna nú

Nú þekur birki 1,5% landsins sem fyrr greinir, eða 1.506 ferkílómetra. Flatarmál þess hefur aukist um tæp 10% frá árinu 1989, alls um130 ferkílómetra. Til viðmiðunar er í takt við eldsumbrotin á hálendinu hægt að nefna að birkiskógarnir hafa samanlagt stækkað frá 1989 um svæði sem er um 50% stærra en hið nýja Nornahraun í Holuhrauni. Nýja hraunið er nú 84-85 km2 að flatarmáli.

Mjög misjafnt er hversu mikið birkiskógarnir hafa breiðst út eftir landshlutum. Mest er aukningin á Vestfjörðum og Suðurlandi en minnst á Norður- og Austurlandi. Arnór Snorrason segir skýringuna á þessu megi hugsanlega rekja til þess að meðalhiti hefur hækkað meira á vestanverðu landinu síðustu áratugina en á austurhelmingi landsins þótt fleira geti spilað þar inn í. Þetta eigi menn þó eftir að rýna betur í.


Hvað er skógur?

Samkvæmt íslenskri skilgreingingu verður fullvaxta trjágróður að ná a.m.k. tveggja metra hæð til að geta kallast skógur. Annars er talað um kjarr. Íslenska birkið skiptist þannig að birkikjarr telst nú þekja hálft prósent landsins, um 547 km2, en birkiskógur þar sem fullvaxin tré eru tveir metrar eða hærri þekur um eitt prósent af heildarflatarmáli landsins, um 960 km2. Ef nota ætti alþjóðlega skilgreiningu um skóg þyrfti birkið þó að ná fimm metra hæð eða meira fullvaxið og þá teldust einungis um 115 km2 íslenska birkiskóglendisins vera skógur.

Jafnvel þótt þessar fyrstu niðurstöður liggi nú fyrir er mjög mikil vinna eftir við að vinna úr gögnunum og á næstu misserum verða birtar vísindagreinar, meðal annars í ritrýndum tímaritum, með ýmsum sértækum niðurstöðum mælingarinnar. Ýmislegt forvitnilegt má þó lesa út úr gögnunum nú þegar, til dæmis að flatarmál birkis á Þórsmörk hefur aukist um 10 km2 frá eldri kortlagningu sem sýndi 4 km2. Útbreiðsla birkisins þar er því geysimikil sem má m.a. þakka 80 ára friðun svæðisins fyrir beit. Einnig er gaman að nefna það sveitarfélag sem hefur mest af birkiskógi á sínu landi. Það er Borgarbyggð þar sem bæði mælist bæði mest af birkiskógi og birkikjarri.

„Mögnuð stund,“ sagði ráðherra

Jón Loftsson skógræktarstjóri færði Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra prentað kort af Íslandi þar sem birkiskóglendið hefur verið merkt inn með þeirri ósk að kortið fengi að hanga uppi í ráðuneytinu. Sigrún ávarpaði fundinn og sagðist fagna gjöfinni mjög því þegar hún hefði tekið við embætti hefði henni strax þótt vanta myndir á veggi ráðuneytisins. Sagðist hún þegar hafa sérstakan stað í huga fyrir kortið þar sem allir myndu sjá það sem í ráðuneytið kæmu. Sigrún lýsti mikilli gleði sinni með þær niðurstöður sem henni voru kynntar og komst svo að orði að þetta hefði verið mögnuð stund. Sjálf sagðist hún hafa átt margar góðar stundir við að pota niður birki í skógarreit norður í Blöndudal og vonaðist til að sá birkiskógur kæmist inn á næsta kort af íslenskum birkiskógum en sem kunnugt er sýnir birkikortlagningin eingöngu náttúrlegt birkiskóglendi, ekki ræktað.

Uppfærð skóglendisvefsjá og nýtt „app“

Í tengslum við kynningu niðurstaðnanna hefur skóglendisvefsjá Skógræktar ríkis­ins verið uppfærð hér á vef stofnunarinnar. Skóglendisvefsjáin sýnir allt skóglendi sem upplýsingar eru til um á Íslandi, bæði náttúrlegt birkiskóglendi og ræktaða skóga. Enn fremur hefur verið útbúið smáforrit eða app sem nota má til að skoða vefsjána í símum og spjaldtölvum.  

Texti og myndir: Pétur Halldórsson

 Fræmyndun á birki í yfir 500 metra hæð yfir sjó. í Austurdal í Skagafirði. 
Mynd: Pétur Halldórsson.">