Skógrækt er skipulagsskyld og fer í gegnum strangt ferli sem sumir álíta jafnvel of þungt í vöfum. H…
Skógrækt er skipulagsskyld og fer í gegnum strangt ferli sem sumir álíta jafnvel of þungt í vöfum. Háskólamenntaðir sérfræðingar sjá um gerð skógræktaráætlana og skógrækt á Íslandi er unnin samkvæmt skýrri stefnu stjórnvalda og í samræmi við lög og skipulagsákvæði. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Auk þess að binda kolefni þurfa skógar sem ræktaðir eru á Íslandi að þola þær loftslagsbreytingar sem fram undan eru og vera fjölbreyttir. Stórauka þarf fræðslu um skóga og skógrækt meðal almennings og í skólum. Mikil tækifæri eru líka í skjólbeltarækt við akra og tún. Að skógrækt sé skipulagslaus, illa ígrunduð og óheft er rangt.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri umfjöllun um skógrækt í Bændablaðinu sem kom út í gær, 6. júlí. Þar er m.a. rætt við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra sem segir að það sem mestu máli skipti í dag sé að auka skógrækt mikið í þágu kolefnisbindingar. „Þeir skógar þurfa auk þess að þola þær loftslagsbreytingar sem fram undan eru. Þeir þurfa að vera fjölbreyttir. Okkar „náttúrulega einrækt“, birkiskógarnir, hafa ekki meira þanþol en einhæfir skógar annarra tegunda. Þess vegna þurfum við að nota þær tegundir í skógrækt sem hvað besta aðlögun sýna hverju sinni. Til að vita hvaða tegundir það eru er nauðsynlegt að stunda öflugar rannsóknir, en ekki t.d. byggja á kreddum um innlendar versus innfluttar tegundir eða hugmyndum um að endurheimta það sem var fyrir landnám. Við þurfum að horfa til framtíðar, ekki fortíðar,“ segir Þröstur orðrétt í samtali við Bændablaðið.

Aukinnar fræðslu þörf

Einnig er rætt við Hlyn Gauta Sigurðsson, sérfræðing Búgreinadeildar skógarbænda hjá Bændasamtökunum, sem segir að efla þurfi skilning á skógum og skógrækt en einnig stórefla fræðslu, m.a. í skólum. Sigríður Hrefna Pálsdóttir, skógfræðingur hjá Skógræktinni og formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, segir mikilvægustu markmið skógræktar á Íslandi vera landgræðslu, endurheimt skógarþekju og sjálfbæra nytjaskógrækt. Einnig sé brýnt að koma upp skjóli fyrir gróður, menn og dýr. Í því sambandi bendir hún á þau miklu tækifæri sem felist í skjólbeltarækt til að verja bústofn fyrir vondum veðrum og auka uppskeru, ekki síst í tengslum við markmið stjórnvalda um aukna kornrækt.

Skipulagsferlið þungt í vöfum

Nokkuð er rætt um skipulagsmál í umfjöllun Bændablaðsins. Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, leggur áherslu á að ekki megi leggja frekari eða ríkari kröfur á landeigendur en orðið er enda dragi slíkt úr vilja og getu landeigenda til að efla og auka skógrækt. Hlynur Gauti telur að skipulagsmálin haldi íslenskri skógrækt í gíslingu því ótrólega flókið geti verið að koma skógræktarverkefnum í gegnum skipulagsferli. Það sé letjandi fyrir marga. Aðalskipulag eigi að vera lifandi plagg, hjálpargagn og verkfæri fyrir okkur en reynist gjarnan þungt í vöfum og tyrfið að skilja nema fyrir sérfræðinga. Skilgreina þurfi skógrækt sem landbúnað í lögum til að einfalda málin. Sigríður Hrefna tekur undir þetta og telur að straumlínulaga þurfi ferlana í stjórnsýslunni en einnig huga að því að veita fjármagn til fornminjaskráningar svo það lendi ekki á skógræktendum og jafnvel fæli fólk frá skógrækt. Í þessu efni þurfi að vera jafnræði óháð því hvaða sveitarfélagi jarðir tilheyra.

Kolefnisbindingin ótvíræð

Blaðið reifar gagnrýnisraddir, m.a. frá Ólafi Arnalds, prófessor við LbhÍ, sem hafi mælt með því að gætt sé hófs við notkun á erlendum plöntutegundum og þegar fram líði stundir muni skógrækt og önnur svæði með mjög einsleitri tegundasamsetningu framandi trjátegunda ekki verða tekin gild til kolefnisjöfnunar. Ekki er ljóst á hverju Ólafur byggir þetta en á hinn bóginn er ljóst að fjölbreytni er eitt af áherslumálum í skógrækt á Íslandi eins og hér hefur verið nefnt að framan. Birgir Arason, bóndi í Gullbrekku í Eyjafjarðarsveit og formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar, telur að tré bindi minna kolefni en annar gróður, þau séu rándýr í gróðurríkinu og hugsi mest um sjálf sig. Hann hefur takmarkaða trú á skógrækt til landbóta og að land sé óafturkræft þegar búið sé að planta í það skógi. Á það skal bent hér að þetta samræmist hvorki reynslu Íslendinga né vísindarannsóknum. Bæði er auðvelt að breyta skógi í annars konar ræktarland eins og reynslan sýnir og kolefnisbinding skóga er mikil og ótvíræð eins og vísindin sýna. Í því sambandi má skjóta inn í þeim tölum frá loftslagsdeild rannsóknasviðs Skógræktarinnar að í slensku skógarnir bundu árið 2021 um 509 þús. tonn CO2-ígilda árið 2021 sem er um 82% af losun vegna landbúnaðar (620 þús. tonn) sama ár. Mest er bindingin í ræktuðu skógunum sem þekja einungis hálft prósent landsins en alls er skógarþekja á Íslandi nú um 2% landsins (sjá hér). Þá fóstra skógar mjög fjölbreytt vistkerfi og vafasamt að líkja trjám við rándýr.

Stefna og markmið skýr

Blaðið tíundar einnig gagnrýni á skógrækt frá samtökunum Vinum íslenskrar náttúru sem hafa meðal annars rætt um að skipulagning skipti gríðarmiklu máli og að unnið sé af vandvirkni og með langtímamarkmið í huga. Nefnt er líka í Bændablaðsgreininni svar Þrastar skógræktarstjóra við þessum málflutningi í grein hans í blaðinu 22. júní. Þröstur bendir þar á að fram hafi verið sett mjög vel ígrunduð, viðamikil og afar mikilvæg stefnumörkun af hálfu stjórnvalda í loftslagsmálum. Einnig nefnir hann opinber markmið Íslands og annarra landa um aukna skógrækt sem þátt í að takast á við loftslagsmálin og skýra stefnumörkun. „Háskólamenntaðir sérfræðingar vinna skógræktaráætlanir og þær fara gegnum formlegt ferli hjá sveitarstjórnum. Markmiðin eru skýr og einnig stefnan og umgjörðin,“ er haft eftir Þresti úr grein hans.

Umfjöllun Bændablaðsins er á bls. 20-22 í 13. tölublaði 2023 sem kom út 6. júlí

Texti: Pétur Halldórsson