Fullorðin sitkalús á grenibarrnál. Ljósmynd: Edda S. Oddsdóttir
Fullorðin sitkalús á grenibarrnál. Ljósmynd: Edda S. Oddsdóttir

Sitkalús er meðal þeirra fáu skordýra sem ekki leggjast í dvala yfir veturinn. Fullorðin dýr drepast ef frost fer niður í tólf til fjórtán stig og því gæti kuldakastið sem nú stendur yfir dregur úr hættu á sitkalúsafaraldri næsta sumar. Ólíklegt er aftur á móti talið að kuldinn hafi áhrif á asparglyttu, jafnvel þótt hún sé bjalla yfir veturinn, því líklega þolir hún mjög mikið frost.

Sitkalús og skemmdir eftir hana. Ljósmynd: Edda S. OddsdóttirÞessa dagana er frekar kalt um land allt. Vetrarkuldi hefur þó ekki áhrif á stóran hluta þeirra meindýra sem lifa á Íslandi. Mörg þeirra eru í dvala yfir veturinn, t.d. sem púpa í jörðu eða egg uppi í tré og þola því mjög mikinn kulda. Í rannsóknum okkar á ertuyglupúpum kom til dæmis í ljós að frost niður í -18 C° hefur engin áhrif á lifun þeirra en jarðvegur á Íslandi nær sjaldnast lægra hitastigi en það.

Síðan eru það meindýrin sem eru á fullorðinsstigi yfir vetrartímann. Asparglyttan er til að mynda bjalla yfir veturinn en finnur sér þó skjól og leggst í dvala. Kuldaþol asparglyttu yfir vetrartímann á Íslandi er ekki þekkt en ólíklegt er að vetrarkuldinn hér hafi áhrif á hana þar sem rannsóknir hafa sýnt að náinn ættingi hennar, laufbjallan Phyllodecta laticollis , þolir frystingu niður í -42°C án þess að skaðast.

Það eru þess vegna aðallega þau fáu skordýr sem leggjast ekki dvala sem þola illa mikið frost yfir vetrartímann. Sitkalúsin er dæmi um skordýrategund sem er virk árið um kring. Henni fjölgar þó lítið þegar kalt er í verði og rannsóknir hafa sýnt að fullorðin dýr sitkalúsarinnar drepast við -12°C til -14C°. Ungviði, sem er ekki byrjað að nærast, þolir frostið betur þar sem það er magainnihald fullorðnu lúsanna sem frýs fyrst. Frost undir 15 gráðum í einhvern tíma getur því valdið því að hún nái ekki að byggja upp nægilegan stofn næsta vor til að valda tjóni. Því er mest hætta á sitkalúsarfaröldrum eftir milda og frostlitla vetur.

Helstu heimildir

Hrafnkelsdottir, B., Sigurdsson, B. D., Oddsdóttir, E., Sverrisson, H., og Halldórsson, G. (2019). Winter survival of Ceramica pisi (Lepidoptera: Noctuidae) in Iceland. Agricultural and Forest Entomology, 21, 219-226.
Powell, W., & Parry, W. (1976). Effects of temperature on overwintering populations of the green spruce aphid Elatobium abietinum. Annals of Applied Biology, 82(2), 209-219.
van der Laak, S. (1982). Physiological adaptations to low temperature in freezing-tolerant Phyllodecta laticollis beetles. Comparative Biochemistry and Physiology Part A: Physiology, 73(4), 613-620.
Texti: Brynja Hrafnkelsdóttir
Sett á vef: Pétur Halldórsson