Skemmdir af völdum birkikembu. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir
Skemmdir af völdum birkikembu. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir

Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, óskar eftir upplýsingum frá landsmönnum um ástand skóga landsins og trjánna sem þar vaxa. Allar upplýsingar um óværu á trjánum eru vel þegnar en einnig um skemmdir af völdum þurrka eða annarra áfalla.

Nú er komið vel fram á sumarið og þegar hafa sumir skaðvaldar unnið sitt verk sem eru aðgangsharðastir á vorin og fyrri hluta sumars. Dæmi um það er birkikemban sem smám saman hefur verið að breiðast út um landið. Samstarf rannsóknasviðs Skógræktarinnar við bæði fagfólk og áhugafólk um trjágróður hefur aflað mikilvægra upplýsinga undanfarin ár um ástand og þróun í þessum efnum.

Ábendingar og upplýsingar má senda Brynju Hrafnkelsdóttur á netfangið brynja@skogur.is.

Sérstaklega er fólk beðið um að hafa augun opin fyrir nýjum pestum þar sem fólk dvelur eða á leið umsvæðum. Skaðvaldar eins ogasparglytta, birkikemba og birkiþéla virðast til dæmis vera að dreifa sér hratt um landið um þessar mundir. Einnig væri gott að fá svar við spurningunni: „Hvaða skaðvaldur eða skaðvaldar finnst þér vera mest áberandi á trjám á þínu svæði eða landshluta þetta árið?“

Neðst í þessari frétt er hlekkur á skjal úr töflureikni sem gæti hjálpað til við skráninguna. Í skjalinu má finna skaðvaldatöflu sem er ætluð til að fylla inn í þær skemmdir sem fólk finnur. Einnig eru útskýringar sem hjálpa til við að fylla út í töfluna (sheet 2) og listi yfir helstu skaðvalda (sheet 3) raðað eftir trjátegundum. Allar upplýsingar og hugleiðingar eru hins vegar velkomnar, jafnvel þótt ekki sé á þessu töfluformi!

Myndir mega gjarnan fylgja með enda geta þær verið mjög gagnlegar til að staðfesta greiningar. Allar myndir eru vistaðar í gagnagrunni þar sem fram kemur hver tók myndina. Skógræktin gengur út frá því að myndir sem stofnuninni eru sendar megi nota í fyrirlestrum enda sé ljósmyndara ávallt getið. Sérstaklega verður eftir því óskað ef nota á innsendar myndir í birtingar, svo sem í Ársriti Skógræktarinnar, ef þannig ber undir. Ef fólk óskar þess að myndirnar séu ekki notaðar er æskilegt að það sé tekið fram um leið og myndirnar eru sendar.

Til aðstoðar við greiningar er hér einnig hlekkur á stutta samantekt sem Edda S. Oddsdóttir vistfræðingur tók saman fyrir nokkru og hefur að geyma myndir af öllum helstu skordýrum sem valda skaða á trjám hérlendis. Samantektin er að miklu leyti byggð á upplýsingum af vef Náttúrufræðistofnunar en þar er líka fróðlegur vefur um pöddur í náttúrunni sem gott er að skoða til að glöggva sig á hvaða skaðvaldar eru á hverju svæði.

Sem fyrr sendir má senda ábendingar og upplýsingar til Brynju Hrafnkelsdóttur á Mógilsá. Netfang hennar er brynja@skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson
Upplýsingar: Brynja Hrafnkelsdóttir