Fyrsti mæliflötur sumarins hjá Íslenskri skógarúttekt var vindbarið holt í Esjuhlíðum. Ljósmynd: Bja…
Fyrsti mæliflötur sumarins hjá Íslenskri skógarúttekt var vindbarið holt í Esjuhlíðum. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjartansson

Árlegar mælingar á skógum landsins eru nú hafnar og fara mælingaflokkar Skógræktarinnar um landið næstu vikurnar til að taka út þá mælifleti sem á dagskrá eru í sumar. Verkefnið kallast Íslensk skógarúttekt. Fyrsti mæliflöturinn þetta sumarið var í ungskógi í Esjuhlíðum og nýttist m.a. við samstillingu mælitækja og hugbúnaðar. Í sumar verður bætt við mæliflötum til að safna gögnum um sjálfsáningu trjátegunda.

Meðfylgjandi mynd er fyrsta myndin sem tekin var þetta sumarið í úttektum Íslenskrar skógarúttektar. Myndin er tekin í vindsorfnum ungskógi í Esjuhlíðum. Síðasta vika var svokölluð tækjastillingavika og þá unnu sérfræðingar rannsóknasviðs Skógræktarinnar að því að samstilla mælitæki og hugbúnað. Samstillingin gekk vel að sögn Bjarka Þórs Kjartanssonar sem er einn mælingamanna, enda sé að verða komin tveggja áratuga reynsla á þessi vinnubrögð.

Hann segir að nú sé stefnt á mælingar á Suðvesturlandi næstu þrjár vikurnar en um miðjan júní verður farið á Vestfirði og Norðurland. Gert verður hlé á mælingum í júlí en strax eftir verslunarmannahelgi verður mælt á Austur- og Suðaustulandi. Þá má búast við að mælingafólk komi við í skógarreitnum á Kirkjubæjarklaustri þar sem hæsta tré landsins nálgast nú óðum þrjátíu metra hæðarmarkið.

Um miðjan ágúst verður svo mælt á Suður og Vesturlandi það sem þá verður eftir af mæliflötum. Þetta árið verða gerðar endurmælingar á rúmlega 170 mæliflötum, Segir Bjarki, ásamt rúmlega 80 mæliflötum sem hafa bæst við á síðustu fimm árum vegna aukinnar skógræktar og vinnu við endurkortlagningu ræktaðra skóga á landinu. Þetta árið verður jafnframt lögð áhersla á að meta sérstaklega sjálfsáningu trjátegunda út fyrir skóga og hefur verið bætt við mæliflötum vegna þess. Það er því ekki ólíklegt að skógareigendur og gestir skóga verði varir við starfsfólk Skógarúttektarinnar á ferð um skóga landsins í sumar.

Heimild og mynd: Bjarki Þór Kjartansson
Texti: Pétur Halldórsson