Oft þarf að beygja sig við rannsóknir á íslenska birkinu. Ellert Arnar Marísson skógfræðinemi og Bjö…
Oft þarf að beygja sig við rannsóknir á íslenska birkinu. Ellert Arnar Marísson skógfræðinemi og Björn Traustason landfræðingur mæla birki á Látraströnd.

Grein um birkikortlagninguna í nýju tölublaði Náttúrufræðingsins

Áætlað er að nýliðun birkis á Íslandi hafi numið 130 km2 á árabilinu 1989 til 2012. Nýliðun skiptist ójafnt á landshluta og samsvarar það að nokkru leyti misjafnri hækkun sumar­hita eftir landshlutum á sama tíma­bili. Sambærileg samsvörun við misjafnan samdrátt í sauðfjárstofninum á árabilinu 1989 til 2012 reyndist minni þótt leitnin væri í sömu átt. Þetta kemur fram í vísindagrein í Náttúrufræðingnum sem nýkominn er út.

Greinina skrifa sex sérfræðingar hjá Skóg­ræktinni, Arnór Snorrason, Björn Trausta­son, Bjarki Þór Kjartansson, Lárus Heið­ars­son, Rúnar Ísleifsson og Ólafur Egg­erts­son. Titill hennar er: Náttúrulegt birki á Íslandi - Ný úttekt á útbreiðslu þess og ástandi.

Í inngangi greinarinnar segir að seinni tíma erfðarannsóknir hafi sýnt að vegna mikils erfðabreytileika íslenska birk­is­ins sé tæpast hægt að tala um eina sérstaka undirtegund ilmbjarkar á Íslandi. Svo breytilegt sé íslenska birkið að einungis lítill hluti birkiskóglendis á landinu geti talist skógur samkvæmt skilgreiningu FAO, matvæla- og land­bún­aðar­stofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar er gert ráð fyrir því að fullvaxta tré verði fimm metra há eða hærri og krónu­þekjan 10% eða meiri á a.m.k. hálfum hektara lands svo tala megi um skóg. Lægra skóglendi flokkast sem annað viði vaxið land, ekki eiginlegur skógur.

Allt birkiskóglendi á Íslandi er samt sem áður tekið með í greininni í Náttúrufræðingnum, allt frá lágvöxnu kjarri upp í myndar­legustu birkiskóga og kallað birki eða birkilendi. Birki er talið hafa vaxið á um 20-30 þúsund ferkílómetrum landsins við landnám en aðeins lítið brot þess var eftir þegar farið var að meta það á síðustu öld. Í útdrætti greinar­inn­ar segir:

Á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar var hafist handa við fyrstu kortlagningu birkis á Íslandi og svipuð úttekt var gerð 15 árum síðar. Það verk sem hér er kynnt er þriðja kortlagningin á birki á landsvísu og fór hún fram á árunum 2010 til 2014. Heildarflatarmál náttúrulegra birkiskóga og birkikjarrs var metið 1.506 km2. Það er töluvert hærra en niðurstöður úr fyrri rannsóknunum sýndu: 1.250 km2 í fyrstu athugun [1972-1975] og 1.183 km2 í hinni næstu [1987-1991]. Með því að skoða aldurssamsetningu birkiskóganna var reynt að meta nýliðun á skóglausu landi og staðfestu niðurstöðurnar að náttúrulegt birki á Íslandi hefur verið í töluverðri sókn á síðustu áratugum eftir margra alda hnignunarskeið. Áætlað er að nýliðun birkis á Íslandi nemi 130 km2 frá árinu 1989 til 2012. Nýliðun skiptist ójafnt á landshluta. Hún var hlutfallslega mest á Vestfjörðum, Vesturlandi og Suðurlandi en minni á Norðurlandi og Austurlandi. Þetta hafði nokkra samsvörun við misjafna aukningu sumarhita eftir landshlutunum á árunum 1989-2006. Sambærileg samsvörun við misjafnan samdrátt í sauðfjárstofninum á árabilinu 1989 til 2012 reyndist minni þótt leitnin væri í sömu átt.


Fjallað er í greininni um útbreiðslusögu birk­is, hæð þess og aldur, og rætt um fyrri skógarúttektir auk þeirrar sem fram fór 2010-2014 og er aðalefni greinarinnar. Þar sést hversu tækninni hefur fleygt fram við slíka kortlagningu og gert hana auðveldari, nákvæmari og ítarlegri.

Aldursgreining, sem m.a. var studd árhringja­greiningu úr sýnum víðs vegar af landinu, kom að góðum notum við að meta breytingar á útbreiðslu birkis­ins. Fram kem­ur þó í umræðum í greininni að fleiri og víðtækari sýni þyrfti til að meta aldurs­sam­setn­ingu birkis, en aflað var í úttektinni, og jafnframt að við sjónrænt mat hætti mönn­um til að meta birkið eldra en það er. Það geti leitt til vanmats á flatarmálsaukingu nýliðunar.

Þá voru breytingar á hitafari og fjölda sauðfjár á rannsóknartímanum líka metnar eins og fram kemur í tilvitnuninni hér að ofan. Rætt er um þær fjölmörgu breytur sem átt geta þátt í útbreiðslu birkis svo sem veðurfar, beit og önnur land­nýting, frægæði, fræset og fleira. Náttúruleg útbreiðsla birkis sé breytileg frá einu tímabili til annars og því mikilvægt að kortleggja útbreiðslu þess með vissu milli bili. Greininni lýkur á þessum orðum:

Náttúrulegir birkiskógar og birkikjarr eru meðal mikilvægustu vistkerfa landsins, ekki síst í ljósi þess að fá vistkerfi hafa orðið fyrir jafnmikilli skerðingu frá landnámi. Því er brýnt að fylgjast vel með breytingum sem á þeim verða. Þá getur aukin þekking á nýliðun og vexti birkis nýst vel við að bæta aðferðir við endurheimt birkiskógar.

Með endurkortlagningu náttúrulegs birkis á Íslandi liggur nú fyrir nýtt stöðumat á útbreiðslu þess, og þar með má átta sig á þróun síðustu áratugina. Niðurstöður okkar eru fyrstu vísbendingarnar um að margra alda sam­drátt­ar­skeiði í sögu náttúrulegra birkiskóga og birkikjarrs er lokið og útþenslustig hefur tekið við, að minnsta kosti í bili.

Björn Traustason, einn greinarhöfunda, stendur hér upp úr jarðlægu birkikjarri á
Látraströnd. „Íslenska birkið er oft lágvaxið og runnkennt og skýrist vaxtarformið
að einhverju leyti af erfðablöndun við fjalldrapa,“ segir í greininni.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson