Tré fellt í Heiðmörk í vísindaskyni. Nú þegar vöxtulegir skógar eru orðnir algengari, með trjám yfir…
Tré fellt í Heiðmörk í vísindaskyni. Nú þegar vöxtulegir skógar eru orðnir algengari, með trjám yfir 15 metra hæð, er hægt að safna nýjum gögnum til að bæta vitneskju okkar um kolefnisinnihald trjáa og þar með kolefnisbindingu íslensku skóganna. Mynd: Magnús Atli Magnússon/RÚV/Landinn

Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, útskýrði í  Landanum í Sjónvarpinu sunnudagskvöldið 14. mars hvernig fundið er út hversu mikinn lífmassa tré hafa að geyma. Í þættinum er líka fjallað um merkilegt starf Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk við skógrækt, grisjun og viðarvinnslu.

Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar. Mynd: Magnús Atli Magnússon/RÚV/Landinn„Við erum að bæta við svokallað lífmassafall sem gert var fyrir tuttugu árum. Þá voru tré mæld og vigtuð til að átta sig á þvi hversu mikill lífmassi er í hverju tré. Til þess þarf náttúrulega að fórna nokkrum trjám," segir Bjarki í þættinum.

Þegar lífmassafall var fundið í íslenskum trjám fyrir tuttugu árum var ekki nóg til af stórum trjám, segir Bjarki, en síðan hafa tré stækkað mikið á Íslandi, mun fleiri tré yfir 15 metra hæð standa í skógunum og upplagt að uppfæra lífmassafallið. Tekin eru sýni af trjám með kerfisbundnum hætti og efnið vigtað, fyrst blautt en síðan aftur þegar það hefur verið þurrkað.

Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur. Mynd: Magnús Atli Magnússon/RÚV/LandinnAllt er þetta gert til að þekkja kolefnisforðann í trjánum og búa til formúlur sem nota má til að reikna út kolefnisbindingu trjáa og skóga. Íslendingar hafa skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um kolefnislosun og kolefnisbindingu. Í tengslum við það er mikilvægt að vita hversu mikið kolefni binst í skógunum.

Nytjaskógur bindur meira en villtur

Sýnin voru að þessu sinni tekin í skógi Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk og Landinn ræðir líka við framkvæmdastjóra félagsins, Auði Kjartansdóttur, sem útskýrir mikilvægi þess að grisja skóginn, bæði fyrir útivistargildi hans og fyrir áframhaldandi vöxt hans til nytja. Hún bendir á að nytjaður skógur bindi í raun tvöfalt á við ósnertan skóg, sérstaklega ef viðurinn er nýttur í hús og aðra hluti sem endast lengi. Þessir hlutir geyma þá kolefnið áfram en skógurinn getur haldið áfram að binda nýtt kolefni.

Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk. Mynd: Magnús Atli Magnússon/RÚV/Landinn12 m2 parket úr Heiðmörk

Þá er líka skoðuð viðarvinnsla Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk og Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk, lýsir því hvernig félagið keypti viðarvinnslutæki af Ströndum fyrir 5 árum, gerði þau upp og notar til að vinna timbur í skóginum. Efninu hefur verið hrósað sem fyrsta flokks efni og hefur verið notað á gólf, veggi, til smíða og fleira. Félagið á hús í Borgarfirði þar sem 120 fermetra gólf var lagt með viði sem félagið vann sjálft úr efniviði úr Heiðmörk. Nú er unnið að því að saga timbur í heilsulind sem verið er að rísa á Kársnesi í Kópavogi.

Auður segir líka frá samstarfi Skógræktarfélags Reykjavíkur við Tækniskólann um að nemendur komi til félagsins, kynnist viði og viðarvinnslu og tenging myndist milli skógargeirans og verðandi iðnaðarmanna. Nánar má lesa um þetta samstarf í nýlegri frétt hér á skogur.is.

Þakkir

Fyrir hönd Skógræktarinnar vill Bjarki Þór þakka Skógræktarfélagi Reykjavíkur kærlega fyrir samstarfið í mælingaverkefninu og góða aðstoð við mælingarnar.

Texti: Pétur Halldórsson

 

Sævar tekur panilefni úr hillu sem unnið er í Heiðmörk úr heimafengnum efniviði. Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk. Mynd: Magnús Atli Magnússon/RÚV/Landinn