Trésmíðanemar úr Tækniskólanum fylgjast með flettingu á trjábol í sögunarmyllu Skógrkæktarfélags Rey…
Trésmíðanemar úr Tækniskólanum fylgjast með flettingu á trjábol í sögunarmyllu Skógrkæktarfélags Reykjavíkur. Ljósmynd úr fréttabréfi félagsins

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Tækniskólinn hafa gert með sér samstarfssamning um verkefnið Skógarnytjar. Verkefnið felur í sér að nemendur í trésmíði fái að kynnast skógrækt og viðarvinnslu frá fyrstu hendi.

Frá þessu segir í frétt á vef félagsins, heidmork.is. Fyrsti hópurinn kom í Heiðmörk fimmtudaginn 4. mars og voru það nemendur í húsgagnasmíði undir handleiðslu Sigríðar Óladóttur, húsgagnasmíðameistara og kennara við Byggingatækniskóla Tækniskólans. Farið var með hópinn út í skóg þar sem rætt var um skógrækt, mismunandi trjátegundir, viðargæði, búnað og viðarvinnslu. Þá felldi Sævar skógarvörður tré og sagaði stóran bol niður í borð og planka.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur komið upp myndarlegri aðstöðu til viðarvinnslu og leitast við að kynna innlent timbur sem valkost til að ýta undir þá þróun að meira sé notað af íslenskum viðarafurðum. Í frétt félagsins er haft eftir Sævari skógarverði að sala á timbri úr Heiðmörk sé að aukast og kaupendahópurinn sé fjölbreyttur, handverksfólk, arktiektar, hönnuðir, garðyrkjumenn, kennarar og útivistarfólk. „Ég vildi helst að þau sem eru að fara að vinna með þetta verði meðvituð um þennan möguleika og hjálpi okkur að finna leiðir til að nytja viðinn sem best“, er haft orðrétt eftir honum á heidmork.is.

Enn fremur kemur fram að hópar úr Tækniskólanum séu væntanlegir í Heiðmörk og verði samstarfið þróað áfram á næstu misserum. Nánar er fjallað um samstarfið á heidmork.is. 

Fjallað var um Skógarnytjar og rætt við Sigríði og Auði framkvæmdastjóra í Samfélaginu á Rás 1, þriðjudaginn 9 mars.

Hlusta á þáttinn

Fréttin á vef Skógræktarfélags Reykjavíkur

Vinnsla: Pétur Halldórsson